Fréttir

Húsasótt ? ýmsir þættir hafa áhrif

23.8.2007

Í nýrri grein eftir norska vísindamenn kemur fram að konur fremur en karlar kvarta undan ýmsum óþægindum sem tengjast húsasótt og á það við um líkamlega fremur en andlega vanlíðan. Vanlíðan karla tengdist einkum loftstreymi og rakastigi. Vanlíðunareinkenni bæði kvenna og karla tengdust bæði andlegu álagi og efnislegum vinnuaðstæðum.
     Rannsóknin var gerð meðal starfsmanna og meistaraprófsnema sem störfuðu í gömlum byggingum er höfðu verið gerðar upp til afnota fyrir háskóla í Noregi. Í ljós kom að konur og karlar gegndu mismunandi störfum og höfðu þar af leiðandi mismunandi möguleika á að breyta um umhverfi t.d. kenndu fleiri karlar en konur en konur voru fremur en karlar bundnar við störf sín á skrifstofum. Hóparnir voru því ekki að öllu leyti samanburðarhæfir. Ójafnvægi milli þeirra krafna sem gerðar eru til starfsfólks og bjargráða virtist hafa áhrif á það hvernig fólki leið í byggingunum. Höfundar mæla með því að litið sé heildstætt á vinnuumhverfið þegar glímt er við vanda eins og húsasótt og tekið tillit til ólíkra aðstæðna kynjanna á mörgum vinnustöðum. Sjá: Bakke JV, Moen BE, Wieslander G og Norbäck D. Gender and the physical and psychosocial work environments are related to indoor air symptoms. Greinin birtist í nýjasta hefti Journal of Occupational and Environmental Medicine 2007;49:641?650. Hægt er að nálgast tímaritið á hvar.is
HKG.