Fréttir

Hollvinir hins gullna jafnvægis - stofnfundur

4.2.2003

Stofnfundur Hollvina hins gullna jafnvægis var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur 23. janúar sl. og er Inghildur Einarsdóttir, sérfræðingur í fræðsludeild, fulltrúi Vinnueftirlitsins í þessu verkefni.


Tilefni fundarins var framhald samstarfsverkefnisins Hins gullna jafnvægis sem Reykjavíkurborg og Gallup stóðu fyrir, milli áranna 2000 - 2001, um sveigjanleika í fyrirtækjum, samræmingu starfs og einkalífs og bætta nýtingu mannauðsins. Eftir að því verkefni lauk hefur vaknað áhugi á að halda áfram með verkefnið, í einhverri mynd, og varð þessi hugmynd ofaná að hollvinir veiti fjárframlög til 3ja ára, þ.e. kr. 150.000- á ári hver. Lagt hefur verið til að þetta fé verði notað til að fjármagna viðburði, t.d. að árleg ráðstefna verði haldin og að viðurkenning verði veitt fyrirtæki þ.e. einstaklingi eða hópi innan fyrirtækis fyrir árangursríkar aðferðir við að auka sveigjanleika á vinnustað. Fjárhagslegur ábyrgðarmaður verkefnisins er Hildur Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar.

Ákveðið var að opna heimasíðu og er ritstjóri hennar Linda Rut Benediktsdóttir. Undirbúningur er í gangi en stefnt er að því að opna vefsíðuna um mánaðarmótin febrúar/mars. Vefsvæðið verður nokkurs konar opin ráðstefna um samræmingu starfs og einkalífs og mun Reykjavíkurborg hafa forgöngu um frekari viðburði á þessu sviði. Markhópur verða allir þeir sem geta stuðlað að bættu starfsumhverfi, auknum sveigjanleika og samhæfingu vinnu og einkalífs.

Í lok fundarins undirrituðu fundarmenn svohljóðandi samstarfsyfirlýsingu fyrir hönd sinna samtaka, stofnunar eða fyrirtækis: 

Við undirrituð tökum höndum saman um að fylgja eftir verkefninu Hið gullna jafnvægi sem Reykjavíkurborg og Gallup stóðu að á árunum 2000-2001.  Undir heitinu Hollvinir hins gullna jafnvægis munum við m.a. starfrækja vefsvæðið www.hgj.is árin 2003, 2004 og 2005 í þeim tilgangi að styrkja umræðu um sveigjanleika á vinnustöðum og samræmingu starfs og einkalífs og miðla nýjum fróðleik um það efni. Jafnframt munum við standa fyrir árlegri viðurkenningu til einstaklinga, félagasamtaka eða vinnustaða sem skarað hafa framúr á þessu sviði eða lagt þýðingarmikinn skerf til umræðunnar.

Hollvinir eru 16 stofnanir, fyrirtæki og félög sem undirrituðu samstarfsyfirlýsingu á fundinum. Þau eru: Alþýðusamband Íslands, félagsmálaráðuneytið, Hugsmiðjan, IMG Gallup, Íslandsbanki hf., Jafnréttisráð, Jafnréttisstofa, Landsbanki Íslands hf., Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Samtök atvinnulífsins, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun.