Fréttir

Hlutverk Vinnueftirlitsins og helstu verkefni

8.6.2005

Helstu verkefni Vinnueftirlitsins eru talin upp hér að aftan. Eitt af verkefnunum er að leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum um hvað þurfi að bæta í vinnuumhverfinu en Vinnueftirlitið segir ekki til um hvernig það skuli gert. Enn síður er Vinnueftirlitið sá aðili sem framkvæmir úrbæturnar. Atvinnurekendur bera ábyrgð á að farið sé að lögum og reglum um vinnuvernd en aðrir stjórnendur og starfsmenn bera einnig sinn hluta af ábyrgðinni.

Fræðsla og útgáfa
Námskeið, vinnustaðafundir, fyrirlestrar og leiðbeiningar um vinnuvernd fyrir stjórnendur, öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði, réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla og fyrir þá sem flytja hættulegan farm o.fl.; útgáfa Fréttabréfs um vinnuvernd, ýmiss konar fræðsluefnis, leiðbeininga, reglna og reglugerða.

Ráðgjöf
Ráðgjöf varðandi vinnuvernd er veitt þeim sem eftir henni leita, t.d. öryggistrúnaðarmönnum, öryggisvörðum, verkstjórum, öðrum stjórnendum og almennum starfsmönnum.

Eftirlit
Eftirlit og umsjón með að vinnuvernarlögunum, reglum og reglugerðum sé framfylgt; markaðseftirlit með vélum og tækjum. Hér má nefna atriði sem tengjast aðbúnaði starfsmanna, öryggi, sál-félagslegum álagsþáttum og hollustuháttum yfirleitt.

Úttekt, mælingar og prófanir
Úttekt, prófanir og umsagnir varðandi vélar og tækjabúnað, t.d. farandvinnuvélar, búvélar og lyftur, t.d. fólkslyftur, bílalyftur og skíðalyftur; úttekt og mælingar á hávaða, mengun, innilofti o.fl.

Umsagnir og starfsleyfi
Umsagnir um teikningar að nýju og breyttu atvinnuhúsnæði og veiting starfsleyfa.

Rannsóknir á félagslegum og andlegum áhættuþáttum
Vandamál tengd félagslegum og andlegum áhættuþáttum eru oft alvarleg. Hér má nefna sem dæmi andlegt og líkamlegt ofbeldi, einelti, kynferðislega áreitni, of mikið vinnuálag, óheppilegt vinnuskipulag og einhæfa vinnu.

Rannsóknir á atvinnusjúkdómum
Rannsóknir á tengslum vinnu og vinnuaðstæðna við sjúkdóma, óþægindi og slys. Þessar rannsóknir taka til hópa manna en ekki er um lækningar einstaklinga að ræða.