Fréttir

Hljóðlátar sprengjur

25.8.2003

Hverjum hefði dottið í hug að þær sprengjur sem springa í kvikmyndum væru hljóðlausar, slíkur er hávaðinn þegar áhorfendur berja þær augum. En hvers vegna skyldu þær vera hljóðlausar. Jú vegna þess að í öllu vinnuumhverfi þarf að huga að öryggi og heilsu starfsmanna. Í þessu tilfelli er verið að verja leikara og annað kvikmyndagerðarfólk við heyrnarskaða, hljóðinu er bætt við á síðari stigum vinnslunnar. Þetta kom meðal annars fram í máli W. Haegeland sem vinnur að öryggismálum hjá BBC. Haegeland hélt erindi á ráðstefnunni Hugur og  hönd í heimi tækninnar.

Á ráðstefnuna mættu um 180 manns víðs vegar að úr heiminum en hún er haldin árlega af Norrænum samtökum í vinnuvistfræði (Nordic Ergonomics Society, NES). Samtökin voru stofnuð fyrir 35 árum og er þetta í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin á Íslandi en Íslendingar gengu í samtökin 1998. Á ráðstefnunni var fjallað um marga áhugaverða fleti vinnuverndar; tæknilega, félagslega og líkamlega. Umsjón var í höndum VINNÍS sem er félag áhugafólks um vinnuvistfræði á Íslandi. Rástefnustjóri var Þórunn Sveinsdóttir, deildarstjóri þróunar- og eftirlitsdeildar Vinnueftirlitsins og formaður VINNÍS. Með vinnuvistfræði er átt við samspil mannsins og þess umhverfis sem hann lifir og starfar í. Umhverfi tekur til aðstöðu, búnaðar, tækja, skipulags, samskipta og fleiri þátta. Þarfir, vellíðan og öryggi fólks er haft í fyrirrúmi.

Ný vandamál

Einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar var Peter Hasle frá tækniháskólanum í Lyngby í Danmörku. Í máli hans kom fram að vandamál tengd vinnuumhverfi væru að breytast. Tekist hafi að vinna gegn ýmsum neikvæðum þáttum í vinnuumhverfinu en samfélagið breytist stöðugt og vandamálin með. Þetta eru til dæmis mál er koma í kjölfar niðurskurðar innan fyrirtækja eða vinnuálags. Hér er um að ræða áhættuþætti eins og streitu, kulnun eða ofbeldi. Lausnir við áhættuþáttum í vinnuumhverfi hafa oftar en ekki verið formi lagasetninga eða reglugerða. Þessi nýju mál verða ekki leyst með slíkum hætti. Ekki er hægt að banna uppsagnir eða þenslu fyrirtækja. En atvinnurekendur og aðrir sem starfa að vinnuvernd geta ekki lengur einblínt á tæknilegar hliðar í vinnuumhverfi eins og hljóð og birtu heldur þarf að skoða vinnuumhverfið sem eina heild. Andleg vanlíðan starfsmanns getur líka valdið líkamlegri vanlíðan. Starfsmaður getur verið þjáður að verkjum sem ekki eru auðveldlega læknaðir þar sem uppruni þeirra er andlegs eðlis. Vinnuframlag starfsmannsins verður skert og þess vegna tapa allir; bæði starfsmaðurinn og atvinnurekandinn. Það er því allra hagur að huga vel að vinnuumhverfi í fyrirtækjum og stofnunum. Ánægja á vinnustað skilar betri og skilvirkari árangri.

Íslenskar rannsóknir

Rannsókn á rafrænu eftirliti á vinnustöðum, sem unnin er af rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins í samvinnu við Landlæknisembættið og Persónuvernd, var kynnt á ráðstefnunni.. Í rannsókninni er rafrænt eftirlit á vinnustöðum skoðað. Í fyrsta lagi er spurt hvort rafrænt eftirlit sé til staðar á vinnustöðum og ef svo er þá hvers konar eftirlit sé um að ræða, vita launþegar af því og hvaða skoðun hafa þeir á slíku eftirliti.
Rannsókn, sem einnig var gerð á vegum rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins, á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi kvenna, sem starfa í öldrunarþjónustunni, leiddi í ljós mikinn mun milli starfshópa. Hjúkrunarfræðingar nutu betri líkamlegrar og andlegrar heilsu en aðrir starfshópar en leituðu þó ekki síður lækna en aðrir. Sjúkraliðar og ófaglærðar konur í umönnun reyndust undir mun meira líkamlegu álagi en hjúkrunarfræðingar og þeim og öðrum starfshópum fannst starfið líka andlega einhæfara. Aðrir starfshópar en hjúkrunarfræðingar töldu of lítið til sín leitað þegar breytingar væru fyrirhugaðar á vinnustaðnum.

Vinnum saman

Margir fyrirlestrar á ráðstefnunni Hugur og hönd í heimi tækninnar fjölluðu um hvernig haga skuli skipulagi á vinnuumhverfi og áhættumati á vinnustöðum. Talið er áhrifaríkast að fá starfsmenn í lið með stjórnendum þegar kemur að slíkri vinnu. Með því að taka virkan þátt í skipulagningu á vinnuumhverfi verða starfsmenn meðvitaðri og jákvæðari. Þeir finna að álit þeirra er metið að verðleikum og þeir eru tilbúnari að vinna eftir skipulagi sem þeir hafa sjálfir átt þátt í að skapa. Samkvæmt lögum á Íslandi eiga allir vinnustaðir með tíu eða fleiri starfsmenn að kjósa öryggistrúnaðarmann og öryggisvörð. Ef starfsmenn eru 50 eða fleiri á fyrirtækið að kjósa sérstaka öryggisnefnd. Þessir aðilar eiga, í samvinnu við atvinnurekanda, að vinna að bættu vinnuumhverfi. Námskeið eru haldin reglulega á vegum Vinnueftirlitsins um lög og reglur stjórnenda og starfsmanna og þá þætti sem hafa áhrif á heilsu okkar og líðan á vinnustað. Þeir sem vilja kynna sér vinnuverndarmál betur er bent á heimasíðurnar
www.vinnis.is og www.vinnueftirlit.is 
 
Þóra Magnea Magnúsdóttir, sérfræðingur á fræðsludeild Vinnueftirlitsins