Fréttir

Hljóðhönnun almennra kennslustofa

9.2.2006

Allar götur frá árinu 1980 hefur alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) viðrað áhyggjur af síauknum hávaða í umhverfinu. Síðastliðna tvo áratugi hefur stóraukin athygli beinst að áhrifum hávaða á líðan manna, námsgetu og heilsufar. Haustið 1990 samþykkti sænska stórþingið sérstaka aðgerðaáætlun gegn hávaða (Handlingsplan mot buller). Greina skyldi vandann og drög lögð að samræmdum aðgerðum. Ári síðar var að finna í stefnuyfirlýsingu sænsku ríkisstjórnarinnar ákvæði um að hávaða skyldi veitt aukin athygli. Afrakstur þessa átaks í Svíþjóð má m.a. finna í merku riti Community Noise sem gefið var út árið 1995 á vegum WHO af Háskólanum í Stokkhólmi og Karolinska stofnunarinnar. Þetta rit varð síðar grunnur að almennum leiðbeiningum alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar Guidelines for Community Noise sem komu út árið 1999. Þar er m.a. fjallað um skólahúsnæði og leidd að því gild rök að herða beri fyrri ákvæði til hljóðhönnunar. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar víða um lönd á áhrifum bakgrunnshávaða og hljómburðar í kennslustofum á vinnuumhverfi kennara og nemenda sem og námsárangur. Niðurstöðurnar bera allar að sama brunni. Mælt er með hljóðlátara og hljómminna kennsluumhverfi en tíðkast hefur.

Í greinargerð Línuhönnunar sem nálgast má hér eru íslensk reglugerðarákvæði til hljómlengdar og bakgrunnshávaða í
almennum kennslustofum borin saman við staðalkröfur og leiðbeiningar í öðrum löndum. Þá er gerð grein fyrir hljóðmælingum í kennslustofum í Salaskóla og Vatnsendaskóla í Kópavogi og í tveimur færanlegum kennslustofum Borgaskóla í Reykjavík. Viðkomandi kennarar voru spurðir hvernig þeim líkaði hljóðvistin.

Upphafleg verkbeiðni kom frá Steingrími Haukssyni deildarstjóra hönnunardeildar Kópavogsbæjar í tengslum við fyrirhugaða hljóðhönnun Kóraskóla. Þorkell Jónsson deildarstjóri hjá Mannvirkjaskrifstofu Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar óskaði síðar eftir aðild að verkefninu sem reyndist auðsótt. Að verkinu unnu verkfræðingarnir Ólafur Hjálmarsson og Ólafur Daníelsson hjá Línuhönnun.