Fréttir

Hertar aðgerðir við eftirlit í byggingar- og mannvirkjagerð

26.5.2010

Dreifibréf til verktaka og verkkaupa
í byggingar- og mannvirkjagerð
og annarra sem málið varðar
Reykjavík, 19. maí 2010
Tilvísun: 201001-0057/3.05.01

Efni: Eftirlit í byggingar- og mannvirkjagerð, hertar aðgerðir

Flest alvarleg vinnuslys hér á landi verða  í byggingariðnaði og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Þetta kemur fram í slysaskrá og skýrslum Vinnueftirlitsins. Þrátt fyrir öflugt eftirlit og mikla áherslu á öryggi á byggingavinnustöðum hefur ekki náðst ásættanlegur árangur. Við eftirlit þarf ítrekað að gefa sömu fyrirmæli um þýðingarmikil öryggisatriði hjá sömu fyrirtækjunum á sömu vinnustöðunum.
 
Í ljósi þessa hefur Vinnueftirlitið ákveðið að herða verulega eftirlit við verklegar framkvæmdir. Í stað þess að banna eingöngu vinnu við ákveðna verkþætti, t.d. vegna ófullnægjandi fallvarna, getur verið gripið til þess ráðs að stöðva allar framkvæmdir á vinnusvæði aðalverktaka þar til nauðsynlegar úrbætur hafa verið gerðar.
 
Nýju verklagi sem byggir á hertum aðgerðum Vinnueftirlitsins er skipt í fjóra flokka og verður framfylgt eins og gerð er grein fyrir í aðalatriðum hér á eftir:
 
Flokkur 1 ? Fyrirmæli um úrbætur þegar
ÖH-áætlun/samræmingaraðila vantar

Aðstæður á vinnustað:

Framkvæmdir í gangi með aðkomu fleiri en eins verktaka. Samræmingaraðili hefur ekki verið skipaður og/eða ekki liggur fyrir fullnægjandi öryggis- og heilbrigðisáætlun með áhættumati verkþátta. Að öðru leyti er ekki tilefni til athugasemda af hálfu Vinnueftirlitsins.
 
Viðbrögð VER:
Skref 1: Vinnueftirlitið gefur fyrirmæli um að ljúka skuli gerð ÖH-áætlunar og áhættumats með stuttum fresti og/eða skipan samræmingaraðila, þ.e. oftast 1-2 vikur, eftir eðli og stöðu verks.
Skref 2:  Ef tilkynning um úrbætur berst ekki er sent ítrekunarbréf til fyrirtækisins þar sem fram kemur að hafi úrbætur ekki verið framkvæmdar innan 14 daga geti það leitt til þvingunaraðgerða og/eða kæru. Aðeins er um eina ítrekun að ræða.
Skref 3: Ef ekki berst tilkynning um úrbætur eftir eina ítrekun er gripið til þvingunaraðgerða.
 
Flokkur 2 ? Fyrirvaralaus stöðvun allrar vinnu við framkvæmdir

Aðstæður á vinnustað:
Framkvæmdir í gangi með aðkomu fleiri en eins verktaka. Vinnupöllum, fallvörnum og/eða öðrum þýðingarmiklum öryggisatriðum er verulega áfátt. Einnig er kerfisbundið vinnuverndarstarf ekki fullnægjandi, m.a. er samræmingu öryggismála áfátt, öryggis- og heilbrigðisáætlun liggur ekki fyrir eða er ófullnægjandi.
 
Viðbrögð VER:
Öll vinna á verkstað er stöðvuð þar til fullnægjandi ÖH-áætlun liggur fyrir og skýrt hvernig samræmingu öryggismála verði háttað, þ.e. hjá öllum sem falla undir aðalverktaka/verkkaupa. Vinna er heimiluð á ný þegar fyrirtækið hefur gert fullnægjandi úrbætur á því sem áfátt var og jafnframt tryggt að kerfisbundnu vinnuverndarstarfi hafi verið komið á í fyrirtækinu.

Flokkur 3 ? Stöðvun vinnu við afmarkaðan verkþátt

Aðstæður á vinnustað:
Öryggis- og heilbrigðisáætlun liggur fyrir og samræmingaraðili öryggis- og heilbrigðisráðstafana eru til staðar en þýðingarmiklum öryggismálum hjá tilteknum verktaka er þó áfátt, eitt eða fleira af eftirfarandi á við, t.d.:
     ? Fallvarnir eru ófullnægjandi og skapa slysahættu
     ? Hífingar eða notkun byggingakrana skapa slysahættu
     ? Aðrar hliðstæðar hættur, t.d. ófullnægjandi frágangur
        bendijárna
 
Viðbrögð VER:
Skref 1: Vinna er stöðvuð en takmarkast við þann verkþátt þar sem öryggi er áfátt, t.d. hjá undirverktaka. Vinna er heimiluð á ný þegar tilkynning um úrbætur hefur borist og þær metnar fullnægjandi.
Skref 2: Ef sannreynt er við næstu skoðun/skoðanir að sömu eða hliðstæðum öryggisatriðum er áfátt hjá aðalverktaka eða undirverktaka við sömu framkvæmd er öll vinna á verkstað stöðvuð. Vinna er heimiluð á ný þegar fyrirtækið hefur gert fullnægjandi úrbætur á því sem var áfátt og jafnframt tryggt að kerfisbundnu vinnuverndarstarfi hafi verið komið á í fyrirtækinu.
 
Flokkur 4 ? Fyrirmæli um úrbætur

Aðstæður á vinnustað:
Öryggismálum hjá verktaka er áfátt, t.d.:
     ? Umferðaleiðir eru ógreiðar og skapa slysahættu
     ? Hjálmanotkun eða notkun annarra viðeigandi persónuhlífa
        er áfátt
     ? Aðrar hliðstæðar hættur
 
Viðbrögð VER:
Skref 1: Eftirlitsmaður heldur fund á vinnustaðnum með yfirmanni/yfirmönnum á verkstað og öryggisnefnd/öryggisfulltrúum þar sem farið er yfir málið. Jafnframt eru viðeigandi fyrirmæli, t.d. um umferðaleiðir, hjálmanotkun eða annað.
Skref 2: Ef sannreynt er við næstu skoðun/skoðanir að sömu eða hliðstæð brot eru endurtekin hjá fyrirtækinu er gripið til þvingunaraðgerða í formi dagsekta. Þvingunaraðgerðum er aflétt þegar fyrirtækið hefur gert fullnægjandi úrbætur á því sem var áfátt og jafnframt tryggt að kerfisbundnu vinnuverndarstarfi sé komið á í fyrirtækinu.
 
Vinnueftirlitið hvetur verktaka til að tryggja að öryggismál allra starfsmanna séu í góðu lagi á þeirra vinnustöðum. Ef verktakar hafa áhuga á að kynna sér nánar þessar vinnureglur eða óskað er eftir frekari skýringum er hægt að hafa samband við umdæmisstjóra Vinnueftirlitsins í viðkomandi umdæmi.

Vinnueftirlitið vill benda sérstaklega á eftirfarandi reglur og reglugerðir:
     ? Reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og
        öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og
        við aðra tímabundna mannvirkjagerð.
     ? Reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd
        vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
     ? Reglur og leiðbeiningar nr. 331/1989 um röraverkpalla.
     ? Reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja.
     ? Reglur nr. 204/1972 ákvæði um verkpalla úr timbri.
 
Virðingarfyllst,

Eyjólfur Sæmundsson      Þórunn Sveinsdóttir
forstjóri                                deildarstjóri