Fréttir

Helstu niðurstöður rannsókna á heilsufari kvenna í ýmsum starfshópum

9.1.2004

Rannsóknir á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi kvenna í ýmsum starfshópum þ.e. hjúkrunarfræðinga, flugfreyja og kennara voru unnar í samstarfi Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Vinnueftirlitsins árið 2002.

Helstu niðurstöður rannsóknanna eru eftirfarandi:

Hjúkrunarfræðingar ( sjá skýrslu um niðurstöður )

Spurningalisti var sendur til 600 manna úrtaks, svörun var 66%. Um 45% fannst starfið fremur eða mjög líkamlega erfitt. Flestar töldu sig við góða heilsu og voru ánægðar í starfi. Þær, sem töldu heilsu sína betri en almennt gerðist, stunduðu líkamsrækt reglulega.

Um þriðjungi hópsins fannst hann hugsa of mikið um mat og þær, sem töldu sig of þungar, voru frekar en aðrar með samviskubit vegna ofáts, fóru síður í líkamsrækt og mátu heilsu sína lakari en þær sem voru ánægðar með þyngdina.

Um 18% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 8% höfðu orðið fyrir slíku tvisvar eða oftar. Um 9% hafði verið hótað á síðastliðnum sex mánuðum, 7% höfðu orðið fyrir einelti og 3% líkamlegu ofbeldi. Sjúklingar og samstarfsmenn voru helstu gerendur kynferðislegrar áreitni en sjúklingar áttu oftast sökina þegar um einelti, líkamlegt ofbeldi eða hótanir var að ræða.

Um 15% hópsins reyktu. Þær, sem voru fimmtugar eða eldri, voru líklegri til að reykja en þær sem yngri voru. Um 21% neytti áfengis vikulega eða oftar og mun hópur eldri en yngri hjúkrunarfræðinga neytti áfengis að staðaldri.

Flugfreyjur (sjá skýrslu um niðurstöður)

Spurningalisti var sendur til allra flugfreyja á félagaskrá Flugfreyjufélags Íslands sem höfðu starfað að lágmarki tvö ár sem flugfreyjur, alls 371 flugfreyja. Svörun var 69%.

Miklum meirihluta flugfreyja, 75%, fannst starfið mjög eða frekar líkamlega erfitt. Það sem mesta athygli vakti í niðurstöðum þessarar könnunar samanborið við aðrar er hve stór hluti flugfreyja sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eða tæp 40%. Rúm 30% höfðu verið áreittar kynferðislega tvisvar eða oftar, þar af tæplega helmingur fjórum sinnum eða oftar.

Yngri flugfreyjur voru fremur fjarverandi vegna eigin veikinda en þær sem voru fimmtugar eða eldri. Um 13% flugfreyja reyktu daglega.

Kennarar ( sjá skýrslu um niðurstöður )

Spurningalisti var sendur til 600 manna úrtaks, svörun var 69%. Kennarar yfir fimmtugt voru minna frá vegna eigin veikinda en þeir sem yngri voru.

Um 8% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 4% tvisvar eða oftar. Um 7% höfðu orðið fyrir hótunum á síðastliðnum sex mánuðum, 5% fyrir líkamlegu ofbeldi og 4% fyrir einelti. Samstarfsmenn kennara voru helstu gerendur kynferðislegrar áreitni en nemendur oftast gerendur eineltis, líkamlegs ofbeldis og hótana.

Flestar töldu sig nokkuð duglegar við að hreyfa sig og 25% sögðust duglegri við það en almennt gerðist meðal kvenna á þeirra aldri. Þær, sem mátu heilsu sína mjög góða og betri en heilsu annarra kvenna á svipuðum aldri, fóru frekar reglulega í líkamsrækt en þær sem mátu heilsu sína síðri.

Fjórðungi fannst þær oft eða alltaf hugsa of mikið um mat, um 17% fengu oft eða alltaf samviskubit af því að hafa borðað yfir sig og 66% töldu sig aðeins eða nokkuð of þungar. Um 17% reyktu, þar af helmingur daglega. Rúm 16% neyttu áfengis vikulega eða oftar.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur í rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins