Fréttir

Heilsuvernd á vinnustað - leiðbeiningar fyrir þjónustuaðila

16.3.2005

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Svava Jónsdóttir

Hugmyndafræði heilsuverndar á vinnustað byggir m.a. á rammatilskipun Evrópubandalagsins, 89/391/EBE, frá 12. júní, 1989; http://www.brunnur.stj.is/ees, samþykktum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (International Labour Organisationen, ILO) Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og íslensku vinnuverndarlögunum (lög nr. 46/1980 með síðari breytingum). Alþjóðlega vinnumálastofnunin skilgreinir heilsuvernd á vinnustöðum fyrst og fremst sem forvarnarstarf og ráðgefandi fyrir vinnuveitendur, starfsmenn og fulltrúa þeirra um öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi.

Í skýrslunni Heilsuvernd starfsmanna, sem Vinnueftirlitið gaf út í júní 1999, er heilsuvernd starfsmanna skilgreind sem ?forvarnarstarf innan fyrirtækjanna sem miðar að því að koma í veg fyrir heilsutjón vegna aðstæðna á vinnustað. Forvarnarstarfið er unnið af til þess bæru fagfólki í umboði atvinnurekenda, í samstarfi við þá og starfsmenn. Í grófum dráttum felst starfið í því að greina áhættu og skipuleggja forvarnir. Ennfremur að forgangsraða framkvæmdum sem byggja á þeirri greiningu. Heilsuskoðanir geta fallið undir starfsemina en þær eru þó ekki kjarni hennar.? (Heilsuvernd starfsmanna, 1999.)
Þessi sama skilgreining er tekin upp í flugritinu: Heilsuvernd á vinnustað sem Vinnueftirlitið gaf út í samvinnu við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Samtök atvinnulífsins árið 2000. (Heilsuvernd á vinnustað, 2000).

Skýrslan Heilsuvernd starfsmanna var á sínum tíma unnin af nefnd á vegum Vinnueftirlitsins, en í nefndinni sátu, auk forstjóra Vinnueftirlitsins, fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Ritari nefndarinnar var starfsmaður Vinnueftirlitsins. Einhugur aðila vinnumarkaðarins virtist ríkja um þessa fyrrgreinda skilgreiningu og henni hefur ekki verið breytt, þótt hugtakið heilsuvernd á vinnustað nái ef til vill betur yfir hugmyndafræðina, sem að baki býr, heldur en heilsuvernd starfsmanna. Hjá Vinnueftirlitinu hefur því verið valið að nota fyrrgreinda hugtakið, þ.e. heilsuvernd á vinnustað. Heilsuvernd starfsmanna leiðir hugann fremur að einstaklingsbundinni heilsuvernd vinnandi fólks, en heilsuvernd á vinnustað er forvarnarstarf sem einkum er bundið vinnustaðnum og vinnuaðstæðunum sem eiga að vera þannig að þær ógni ekki heilsu manna. Atvinnurekendum er skylt að sjá til þess að vinnuumhverfið sé viðunandi. Í XI. kafla laga nr. 46/1980( með síðari tíma breytingum) 66. gr. segir svo:
?Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65.gr. a, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.

Markmið heilsuverndar er að:
a) stuðla að því, að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni, sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
b) stuðla að því, að vinnu sé hagað þannig, að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
c) draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
d) stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmann.

Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Skal leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum.

Félagsmálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um heilsuvernd, þar á meðal um heilsuvernd sem tekur mið af sérstökum áhættuþáttum, forvarnir með hliðsjón af eðli starfa, stærð vinnustaða og gerð og frágang skjala sem tengjast áætlun um heilsuvernd.? (Lög nr. 46/1980 með síðari tíma breytingum). Reglurnar hafa ekki enn verið settar (í febr. 2005).

Heilsuvernd á vinnustað er margþætt starfsemi sem krefst þverfaglegrar þekkingar og verður ekki unnin svo vel sé af neinum einum einstaklingi. Heilsuvernd af þessu tagi er lögbundið forvarnarstarf.
Heilsuefling á vinnustað er ekki lagaleg skylda en margir atvinnurekendur kjósa að ganga lengra en lögin kveða á um og efla heilsu starfsmanna sinna með ýmsum ráðum þar eð þeir telja að slíkt skili sér í ánægðara og heilbrigðara starfsfólki sem afkasti meiru.
 Vinnuumhverfið hefur áhrif á heilsuna og heilsa starfsmanna hefur áhrif á það hvernig þeir skila störfum sínum, um gagnverkandi áhrif er því að ræða (sjá svipaða mynd í bókinni Occupational Health eftir J. M. Harrington og félaga.

Heilsa <--------------------> Vinna

Markmið heilsuverndar á vinnustað
Markmið heilsuverndar á vinnustað er fyrst og fremst að koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar ? ekki að meðhöndla sjúkdóma. Mismunandi áherslur eru þó í mismunandi löndum.

Í flugritinu Heilsuvernd á vinnustað þar sem meginatriðin úr skýrslu Vinnueftirlitsins frá 1999 eru dregin fram eru markmið heilsuverndar á vinnustað talin upp:

  • Að fyrirbyggja óþægindi, sjúkdóma og slys sem rekja má til atvinnu fólks.
  •  Að auka þekkingu atvinnurekenda og launafólks á áhættuþáttum í vinnuumhverfi.
  • Að draga úr fjarvistum vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi, viðhalda heilsu starfsmanna og aðlaga störfin að starfsmönnum.

Í skýrslunni Heilsuvernd starfsmanna er fjallað um hvernig ná megi settum markmiðum og raða niður eftir áherslu og forgangsröð:

1. Greining og áhættumat á vinnuumhverfi og ráðgjöf um forvarnir
2. Fræðsla og ráðgjöf
3. Heilsufarsskoðanir

Lögð er áhersla á að forvarnarstarfið þurfi að vera markvisst á 1. stigi forvarna og snúi fyrst og fremst að því að fjarlægja áhættuþætti í vinnuumhver