Fréttir

Heilsuvernd á vinnustað

12.2.2004

Með heilsuvernd á vinnustað er átt við forvarnarstarf innan fyrirtækja sem miðar að því að koma í veg fyrir vanlíðan og heilsutjón sem stafa kann af vinnu eða vinnuskilyrðum. Vinna skal að forvörnunum innan vinnustaðarins samhliða starfseminni og mikilvægt er að starfsmenn og stjórnendur taki virkan þátt. Við sérstakar aðstæður eða sérstök verkefni getur þurft aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga sem vinna þá í umboði atvinnurekandans, í samstarfi við hann og starfsmenn að heilsuvernd á vinnustað. Í grófum dráttum felst starfið í því að greina áhættu, skipuleggja forvarnir og forgangsraða framkvæmdum sem byggja á þeirri greiningu. Heilsufarsskoðanir geta fallið undir starfsemina en eru ekki kjarni hennar.

Breytingar á lögum nr. 46/1980, vinnuverndarlögunum svokölluðu, voru samþykktar á Alþingi síðastliðið vor.  Breytingarnar fólu meðal annars í sér að atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna, sem sinna þeim, sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.

Ennfremur ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumatinu, þ.e. áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.


Markmið heilsuverndar á vinnustað samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni er að:

a. stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,

b. stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,

c. draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,

d. stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.

Ef atvinnurekandi  metur aðstæður slíkar að hann eða starfsmenn hans hafi ekki þekkingu eða færni til að gera áhættumatið og áætlun um forvarnir skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa.

Einungis er ástæða til heilsufarsskoðunar ef áhættumat leiðir í ljós að starfsskilyrði eru slík að heilsutjón geti hlotist af. Markmiðið með slíkum skoðunum er að koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma.

Þjónustuaðili, sem veitir heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum, skal hafa aðgang að sérfræðingum sem hafa fullnægjandi þekkinguá heilbrigðissviði, í félagsvísindum, sálfræði, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að þeir séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta.

Sérfræðingur, sem vinnur að heilsuvernd á vinnustað, skal starfa sem óháður, sérfróður aðili. Hann þarf að vera atvinnurekendum, fulltrúum þeirra og launafólki til ráðuneytis og ráðgjafar, svo og öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, við að skapa sem öruggast og heilsusamlegast vinnuumhverfi.

Svava Jónsdóttir
sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins