Fréttir

Heilsueflingardagur Vinnueftirlitsins

11.2.2004

Þann 6. feb. sl. hafði Vinnueftirlitið heilsueflingardag fyrir starfsmenn sína. Dagurinn hófst með fyrirlestri á starfsmannafundi þar sem Ásgerður Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari og íþróttakennari hjá Heilsuskólanum okkar á vegum Líf og heilsu, hélt skemmtilegt og fróðlegt erindi um heilsusamlega lífshætti og vellíðan í vinnu. Hún lagði ríka áherslu á að heilsusamlegt mataræði, reglubundin hreyfing, að skipuleggja tímann og vera í jafnvægi væru lykilatriði svo að fólki liði vel.

Í hádeginu var boðið upp á niðurskorna ávextir sem forrétt á undan hefðbundinni máltíð starfsmanna, einnig gafst starfsmönnum kostur á að sérpanta heilsukost. Starfsmenn Vinnueftirlitsins á landsbyggðinni voru hvattir til að snæða saman heilsubita í hádeginu og hlusta á fyrirlestur morgunsins sem var vistaður á innra neti stofnunarinnar. Starfsmenn voru einnig hvattir til að skoða ýmsa heimasíður þar sem heilsutengdar upplýsingar er að finna og hægt að gera heilsutengt sjálfsmat.

Rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins hafði ?opið hús? frá klukkan 14-16, þar sem starfsmönnum gafst kostur á að hittast yfir glæsilegum ávaxtabakka og sítrónuvatni, fá heilsutengdar upplýsingar, skoða bæklinga og svara sjálfsmatsprófi um heilsutengd lífsgæði. Möguleiki var á að taka þátt í hópefli um hvernig hægt er að verða árangursríkari í starfi og æfa sig í að hrósa hvort öðru. Einnig fengu starfsmenn  ráðleggingar um aðferðir til að hætta að reykja, blóðþrýstingsmælingu og að reikna út BMI (Body Mass Index) sem er viðmið Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um æskilega líkamsþyngd.

Heilsueflingardagurinn mæltist vel fyrir hjá starfsmönnum og er hvatning til allra að huga að heilsusamlegum lífsháttum og vellíðan.

Er þyngdin í lagi?   (Upplýsingar teknar af heimasíðu Manneldisráðs Íslands)

Þú getur reiknað hvort þyngdin sé innan æskilegra marka með því að deila í þyngd þína í kílóum með hæðinni í metrum í öðru veldi (kg/m2). Þannig fæst ákveðinn stuðull sem nefnist BMI (Body Mass Index).

Samkvæmt viðmiðunarmörkum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, er vannæring, kjörþyngd, ofþyngd og offita fullorðinna skilgreind á eftirfarandi hátt:

Vannæring:  BMI minna en 18.
Kjörþyngd:   BMI á bilinu 18.5-24.9
Ofþyngd:     BMI á bilinu 25.0-29
Offita:        BMI stærra en eða jafnt og 30

Rétt er að benda á að stuðullinn tekur ekki tillit til mismunandi líkamsbyggingar fólks. Hann greinir t.d. ekki á milli þyngdar vöðva og fitu þannig að vöðvamikill en grannur einstaklingur getur lent í ofþyngdarhópnum.

Dæmi um heimasíður með heilsutengdum upplýsingum

http://www.landlaeknir.is

http://www.reyklaus.is/

http://www.doktor.is/

http://www.syni.is/