Fréttir

Handþvottur er gulls ígildi

2.3.2009

Rannsóknir sýna að skortur á hreinlæti veldur dauða meir en 3000 Dana árlega, veikindafjarvistum meir en milljón daga og kostar þjóðfélagið offjár samkvæmt grein sem birtist nýlega í blaðinu Arbejdsmiljø sem gefið er út á vegum Rannsóknastofnunarinnar í vinnuvernd í Danmörku (Det Nationale Forskningscenter for Arbejdsmiljø. Handþvottur er öflug forvörn.
 Bent er á mikilvægi þess að fólk þvoi sér um hendurnar eða noti handspritt sem reyndar þykir gefa betri raun en venjulegur handþvottur sem þarf að vera vandlega gerður ef hann á að koma að nægu gagni. Tölvulyklaborð, símar og önnur tæki sem oft á tíðum eru í notkun hjá fleiri en einum eru oft menguð smitefni sem auðveldlega berst milli fólks. Þessa vegna skiptir miklu að hreinsa þessi tæki vel en það er oft hægara sagt en gert vegna þess að lyklaborðin eru t.d. oft óaðgengileg fyrir þrif. Danska fyrirtækið GreenMaric hefur hannað lyklaborð sem þolir vatn, sápu og spritt.
 Strangra reglna er þörf við þrif bæði á vinnustöðum og annars staðar, ekki hvað síst þar sem fólk frá ýmsum þjóðlöndum kemur að störfum með takmarkaða málakunnáttu og mismunandi venjur heiman að. Í danska blaðinu er sagt frá því að vitað sé til að óhrein handklæði og klútar hafi verið notaðir til að þurrka af klósettum, vöskum og jafnvel glösum.
 Fullyrt er að minnka megi veikindafjarvistir til muna ef meira hreinlætis er gætt.
 Hérlendis hefur landlæknisembættið lagt mikla áherslu á gildi handþvottar og er að finna leiðbeiningar um handþvott á vef embættisins http://www.landlaeknir.is/?PageID="1060 
 Danska greinin vekur til umhugsunar um það hvernig málum er háttað hérlendis á vinnustöðum að því er hreinlæti og handþvott varðar.