Fréttir

Grein um ójöfnuð í heilsufari á Íslandi

8.8.2005

Í nýjasta tölublaði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga birtist grein um ójöfnuð í heilsufari hérlendis eftir Dr. Hólmfríði K. Gunnarsdóttur, sérfræðing á Rannsóknastofu í vinnuvernd/rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins. Í greininni er greint frá niðurstöðum fjölmargra rannsókna sem benda skýrt til þess að ólíkir starfs- og menntunarhópar á Íslandi búi við ólíkt heilsufar.

Erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt að þeir sem minnst mega sín, þ.e. hafa lág laun, stutta skólagöngu að baki og gegna ófaglærðum störfum eða eru atvinnulausir, búa við meira heilsuleysi og lifa skemur en aðrir. Ójöfnuður í heilsufari þjóðfélagshópa kemur skýrar fram hjá körlum en konum. Umræður um ójafnræði í heilsufari hafa farið lágt hérlendis enda almennt talið að hér sé þjóðfélag þar sem jöfnuður ríki. Ójöfnuður í heilsufari þjóðfélagshópa kemur skýrar fram hjá körlum en konum.

Á það er bent í greininni að vafi leiki á því hvort jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé lykilatriði til að leysa vandann. Forvarnir og fræðsla þurfi að haldast í hendur við efnahagslegan jöfnuð. Þekking á þjóðfélaginu sé undirstaðan þegar fjallað er um áherslur til heilsueflingar og heilbrigðisáætlun gerð fyrir framtíðina.