Fréttir

Gildi fegurðar, skopskyns og menningar fyrir heilbrigði og atvinnulíf kvenna í Svíþjóð.

22.8.2007

Nýleg sænsk rannsókn leiðir í ljós að konur nýta sér fegurð, skopskyn og menningu til að viðhalda heilbrigði.  Markmið rannsóknarinnar var að skoða vinnu kvenna og upplifun þeirra á heilbrigði og óheilbrigði í tengslum við vinnu, bæði launaða og ólaunaða.  Tekin voru viðtöl við 20 sænskar konur á aldrinum 63-83 ára sem voru beðnar um að segja frá upplifun sinni af vinnu og heilbrigði á lífsleiðinni.

Í viðtölum við konurnar kom í ljós að viðhorf þeirra til heilsu var ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma, það gat einnig þýtt að vera fær um að vinna og taka þátt í daglegu lífi jafnvel þótt sjúkdómseinkenni væru til staðar.  Heilbrigði gat þannig þýtt að nýta styrkleika til að komast í gegnum erfiðleika eins og verki, erfið hjónabönd, einmanaleika og mótlæti í vinnu.

Þannig lýstu konurnar því hvernig dagleg heimilisstörf, jafnvel eins einföld og að leggja á borð, urðu ánægjulegri og þýðingarmeiri þegar þær lögðu sig fram um að gera hlutina fallegri eða þægilegri.  Menning eins og lestur bókar kom í veg fyrir einmanaleika sem og söngur í kór eða leikhúsferðir og dans.  Skopskyn nýttu þær til að glæða einhæfa vinnu þýðingu eða til að komast yfir erfið streitutímabil. Ein kona sem þjáðist af stöðugum bakverk lýsti því t.d. hvernig hún naut vinnunnar þrátt fyrir verkina og hvernig hún komst hjá því að vera stöðugt frá vegna verkja því í vinnunni hitti hún fólk og hló með þeim og gantaðist sem gerði vinnuna ánægjulega.

Fyrir þá sem vilja kynna sér betur niðurstöður rannsóknarinnar geta nálgast hana í Scandinvian Journal og Public Health:  Forssén, A.S.K.  (2007).  Humour, beauty, and culture as personal health resources:  Experiences of elderly Swedish women.  Scandinavian Journal of Public Health, 2007; 35: 228-234.  Útdráttinn má finna á eftirfarandi síðu:

http://portal.isiknowledge.com/portal.cgi?DestApp=XS_FORM&Func="Frame

 

Ásta Snorradóttir