Fréttir

Fyrirkomulag vaktavinnu kannað

15.12.2005

Rannsóknastofa í vinnuvernd og  starfshópur um málefni vaktavinnustarfsmanna undirrituðu í gær verksamning um gerð og framkvæmd könnunar  á aðstæðum og aðbúnaði vaktavinnustarfsmanna. Rannsóknastofan tekur að sér, fyrir hönd starfshópsins að rannsaka aðstæður og aðbúnað vaktavinnustarfsmanna sem starfa á vegum ríkis og sveitarfélaga.  Könnuð verða almenn og sértæk atriði sem geta haft áhrif á aðstæður og aðbúnað og mögulegar afleiðingar vaktavinnunnar. Af hálfu Rannsóknastofu í vinnuvernd hafa Dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og  Dr. Herdís Sveinsdóttir, umsjón með og stýra könnuninni.

Starfshópur um málefni vaktavinnustarfsmanna er skipaður fulltrúum frá BSRB og BHM annars vegar og frá ríki, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga hins vegar. Starfshópurinn var skipaður í tengslum við síðustu kjarasamninga og er honum ætlað að kanna aðstæður vaktavinnufólks og koma með tillögur  um hvernig bæta megi vinnufyrirkomulag vaktavinnunnar og gera hana eftirsóknarverðari.

Helstu niðurstöður verkefnisins verða kynntar á málþingi um málefni vaktavinnustarfsmanna í byrjun febrúar 2006 sem aðilar munu standa saman að.