Fréttir

Frumvarp um breytingar á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

10.5.2001

Félagsmálaráðherra lagði í byrjun mars fram frumvarp á Alþingi til laga um breytingar á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi: 1. Lögfesting meginreglna vinnutímatilskipunar 93/104/EB. Þannig verða teknar upp meginreglur tilskipunarinnar um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar. 2. Lögleiðing ákvæða tilskipunar 89/391/EBE um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna. Í því felst m.a. að atvinnurekanda er skylt að gera eða láta gera áhættumat sem tekur til þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta skapað áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna. 3. Heilsuvernd starfsmanna. Lagt er til að heilsuvernd starfsmanna verði ekki takmörkuð við þjónustu heilsugæslustöðva eða sjúkrahúsa eins og nú er skv. gildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir að heilsuvernd starfsmanna geti verið veitt að hluta eða öllu leyti innan fyrirtækis. 4. Ýmsar breytingar. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um dagsektir, stjórn Vinnueftirlitsins, tekjur Vinnueftirlitsins ofl. Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk þann 15. mars sl. og er það nú til umfjöllunar í félagsmálanefnd. Hægt er nálgast frumvarpið og umfjöllun um það á vef Alþingis