Fréttir

Frumvarp til laga um bann við reykingum á öllum vinnustöðum

18.2.2005

Í dag má öllum vera ljós hætta af óbeinum reykingum. Þær auka hættu manna mjög mikið á að fá ýmis konar krabbamein, hjarta og öndunarfærasjúkdóma, auk þess að vera fólki til almennra óþæginda sem fyrir verður. Þessi mengun er í dag mesti krabbameinsvaldur á vinnustöðum í hinum vestræna heimi. Hér á Íslandi er allt sem bendir til að þessu sé eins farið, þó að miklar framfarir hafi orðið þegar tóbaksreykingar voru bannaðar á vinnustöðum. Á því banni er þó ein veigamikil undantekning, veitinga- og þjónustugeirinn. Markmið vinnuverndarlaganna er í sjálfu sér skýrt, starfsfólk á rétt á öruggu vinnuumhverfi og sérlega gildir þetta um ófrískar konur á vinnumarkaði og konur með börn á brjósti. Vinnuumhverfi mengað af tóbaksreyk uppfyllir ekki þessi markmið.

Það er því mikið gleðiefni að fram er komið frumvarp á Alþingi sem ætlað er að taka á þessu og banna reykingar á öllum vinnustöðum, einnig  á veitingastöðum og gera þannig alla vinnustaði reyklausa.  Þetta skref hefur þegar verið stigið af nokkrum Evrópuþjóðum. Með því að stíga þetta skref verður mikilvægum vinnuverndaráfanga náð. Andstæðingar, þessa skrefs hafa bent á að með því séu skert réttindi reykingafólks og starfsfólk sem reykir ekki eða vill ekki vera í reyk, geti leitað í önnur störf. Það er því miður ekki alltaf raunhæft t.d. fyrir fólk sem menntað hefur sig í listum eða þjónustugeirum og þessir vinnustaðir eru þeirra lifibrauð. Auk þessa óskar stór hópur reykingamanna þess heitast að hætta og hefur gert til þess margar tilraunir. Umhverfi mettað reyk gerir þessum starfsmönnum enn erfiðara fyrir en ella til að stíga þetta mikilvægasta skref til bættrar heilsu sem þeir geta stigið. Bann við reykingum yrði þeim til hjálpar. Rök, sem lúta að efnahagslegu tjóni veitingastaða, eru frá almennu sjónarmiði léttvæg þótt þau séu mikilvæg fyrir einstaka aðila. Telji þingmenn þau hins vegar umtalsverð er eðlilegt í ljósi almanna hagsmuna að hlúa að almennum rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja. Það verður síst gert með því að vaða áfram REYK í þessum mikilvæga atvinnugeira. Í ljósi þessa er brýnt að hvetja þingmenn til að samþykkja lög sem banna reykingar á öllum vinnustöðum án undantekningar, vinnuvernd til heilla.

Kristinn Tómasson, Dr.med
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins