Fréttir

Fréttatilkynning, 4. mars 2009

4.3.2009

Í tilefni af dauðaslysi og alvarlegu slysi sem urðu í febrúar sl. við tækjabúnað undir loftþrýstingi

Öryggisráðstafanir vegna vinnu við tækjabúnað undir loftþrýstingi

Nýlega varð dauðaslys er lok af þrýstihylki þeyttist á mann þannig að hann hlaut bana af og alvarlegt slys varð er lok af tunnu undir þrýstingi þeyttist á tvo starfsmenn og slasaði þá illa. Vinnueftirlitið vill af þessu tilefni vekja athygli fyrirtækja og almennings á þeim hættum sem fylgja notkun tækjabúnaðar undir loftþrýstingi. Hér verða tilgreindar helstu kröfur sem gerðar eru um öryggisbúnað tækjabúnaðarins og hvaða ráðstafanir þarf að gera til að tryggja öryggi starfsmanna við notkun og viðhald þessara tækja.

Tæki og búnaður
Mikilvægt er að atvinnurekendur geri starfsmönnum sínum grein fyrir þeirri hættu sem getur fylgt hylkjum og öðrum tækjabúnaði undir loftþrýstingi sé fyllsta öryggis ekki gætt.
Hættan við samanþjappaðar lofttegundir eykst í hlutfalli við a) aukinn loftþrýsting, b) aukið rúmmál og c) stærð flatar sem samanþjappaða loftið verkar á.
Þrýstingur er yfirleitt mældur í börum, en 1 bar er mjög nærri 1 kg/cm2. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim kröftum sem verka á búnað sem er undir loftþþrýstingi. Ef þvermál stimpils, sem þrýst er á, er t.d. 50 cm þá er flatarmálið 1962 cm2 og krafturinn, sem ýtir á hann, er þá 1962 kg  eða rétt tæp 2 tonn.
Því er brýnt að yfirfara búnaðinn reglulega, m.a. þar sem tryggt sé að þrýstinemar vinni rétt, þrýstimælir sýni réttan vinnuþrýsting og öryggisloki sé stilltur eftir fyrirmælum framleiðanda og hann innsiglaður.
Eftirlit með búnaðinum skal framkvæmt reglubundið eftir fyrirmælum framleiðanda.

Framkvæmd vinnunnar
Atvinnurekendi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlum um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Slík áætlun skal m.a. fela í sér áhættumat og áætlun um forvarnir. Í áhættumatinu skal meta áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfinu, m.a. vegna notkunar tækja.
Áætluninni skal fylgt eftir og hún kynnt fyrir starfsmönnum á fullnægjandi hátt
Atvinnurekandi skal tryggja að íslenskir og erlendir starfsmenn séu upplýstir um hættur sem fylgja viðkomandi verkum. Ganga verður úr skugga um að erlendir starfsmenn skilji þá fræðslu og leiðbeiningar sem þeir hafa fá. Skriflegar leiðbeiningar um notkun tækja skulu liggja fyrir og starfsmenn skulu fá nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á öruggan hátt.
Viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða tækja skulu vera á hendi þeirra starfsmanna sem hafa til þess þekkingu.

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins www.vinnueftirlit.is er að finna viðkomandi lög, reglur og reglugerðir, þ.e. lög nr. 46/1980, reglugerð nr. 920/2006 og reglugerð nr. 367/2006. Undir flipanum Gagnabrunnur-áhættumat á heimasíðunni eru ýmsar leiðbeiningar og upplýsingar sem að gagni mega koma við gerð áhættumats og skipulagningu forvarna.