Fréttir

Fréttatilkynning í tilefni slyss við löndun 14. febrúar 2010

16.2.2010

 
Alvarlegt vinnuslys varð við löndun þann 14. febrúar sl. þar sem tveir starfsmenn misstu meðvitund í lest skips. Slys af svipuðum toga varð fyrir réttu ári við löndun. Í kjölfar þess slyss sendi Vinnueftirlitið dreifibréf til allra útgerðarfélaga, fiskimjölsverksmiðja, verktaka við löndun og annarra sem málið varðar, þar sem varað var við þeim hættum sem slíkri vinnu kann að fylgja og bent á þær öryggisreglur sem fylgja þarf.
 
Vinnueftirlitið vill enn á ný árétta að veruleg slysahætta er fyrir hendi í lestum skipa, hráefnisgeymum og ?þróm þegar hráefnið er farið að rotna; þá myndast hættulegar lofttegundir og súrefnisskortur getur orðið. Stofnunin ítrekar að gera þurfi eftirfarandi öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi starfsmanna við þessa vinnu:
·        Atvinnurekandi skal tryggja að íslenskir og erlendir starfsmenn séu upplýstir um þær hættur sem fylgja þessum verkum. Ganga verður úr skugga um að erlendir starfsmenn hafi skilið þá fræðslu og leiðbeiningar sem þeir fá.
·        Jafnframt skal atvinnurekandi tryggja að starfsmenn annarra fyrirtækja, þar á meðal starfsmannaleigna, sem taka að sér verk innan fyrirtækis hans, hafi í raun fengið viðeigandi leiðbeiningar um áhættu varðandi viðkomandi verk.
Vinnueftirlitið vill jafnframt benda á að atvinnurekendi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlum um öryggi og heilbrigði á vinnustað áður en vinna hefst. Slík áætlun skal m.a. fela í sér áhættumat og áætlun um forvarnir. Hvoru tveggja skal fylgt eftir og kynnt fyrir starfsmönnum, sbr. ákvæði 65. og 66. gr. vinnuverndarlaganna nr. 46/1980 og ákvæði reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
 
Sérstakar reglur, nr. 429/1995, gilda um vinnu í lokuðu rými. Þar er m.a. kveðið á um að atvinnurekandi eða annar sem hann tilnefnir þurfi að gefa heimild til vinnu í geymum, þróm og lestum skipa áður en vinna hefst. Heimildin er bundin eftirfarandi skilyrðum:
·        Rýmið skal hafa verið loftræst og loftræsting tryggð allan tímann sem vinna fer fram
·        Mæla skal súrefni og gas í rýminu áður en vinna hefst
·        Nota skal viðeigandi persónuhlífar
·        Viðkomandi starfsmenn skulu búnir öryggisbelti með línu
·        Stöðug vakt skal vera yfir þessum starfsmönnum og reglur um samskipti vaktmanns við þá ljósar
·        Búnaður skal vera fyrir hendi til að ná mönnum upp
Leitast skal við að haga vinnu þannig að sem minnst þurfi að fara ofan í lestar og þrær eða inn í geyma.
 
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, er að finna viðkomandi lög, reglur og reglugerðir.