Fréttir

FRÉTTATILKYNNING - Hættulegur aukabúnaður á vélorf

27.4.2011

Sláttuorf eða vélorf eru nokkuð algeng hérlendis. Eru þau yfirleitt markaðssett með skurðarbúnaði sem er snúningshaus með nælonþræði eða þá með heilu málmblaði. Framleiðendur orfanna gera við hönnun þeirra ráð fyrir hættu sem af þeim stafar, m.a. af völdum frákasts og bregðast við henni með viðeigandi ráðstöfunum, t.d. með því að hanna vélorfin með hlífum til að fyrirbyggja slys af völdum þessarar hættu.
Hægt hefur verið að fá á vélorf aukabúnað sem framleiddur er af öðrum en framleiðendum orfanna. Eru það t.d. snúningshausar með ýmsum gerðum af keðjum, keðjum með skurðarblöðum á endum eða skurðarblöðum sem fest eru við snúningshausinn með boltum eða hnoðum. Þessi aukabúnaður eykur hættu á slysum umfram notkun nælonþráðar eða einblaða skurðarbúnaðar. Bæði er aukin hætta á að hlutar af, eða brot úr, skurðarbúnaðinum þeytist til, sem og smásteinar. Við hönnun á vélorfum er ekki gert ráð fyrir notkun slíks aukabúnaðar og sem dæmi er því hlífabúnaður orfanna ekki nægilega öflugur til að fyrirbyggja hættu af notkun slíks aukabúnaðar. Vélorfin með slíkum aukabúnaði eru því hættuleg og hefur notkun þeirra þegar valdið slysum, m.a. dauðaslysi.
Vélorf með aukabúnaði, öðrum en þeim sem þau eru markaðssett með af framleiðanda þeirra, uppfylla ekki ákvæði reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað og er notkun vélorfa með slíkum aukabúnaði því ekki leyfileg. Er því hér með beint til dreifingar- og þjónustuaðila vélorfa að markaðssetja ekki annan skurðarbúnað á vélorf en þann sem framleiðandi viðkomandi vélorfs viðurkennir. Jafnframt er því beint til notenda vélorfa sem mögulega eiga aukabúnað eins og um ræðir að hætta nú þegar notkun hans.

Hér að neðan má sjá nokkur dæmi um varasaman aukabúnað á vélorf.
velorf3