Fréttir

Fréttatilkynning

20.8.2010

Fréttatilkynning
Vinnueftirlitið heimilar á ný notkun bræðsluofns hjá Elkem Ísland á Grundartanga
Að kvöldi dags 29. júní sl. varð alvarlegt vinnuslys við ofn 1 í verksmiðju Elkem Ísland á Grundartanga er gos varð í ofninum og eldtunga barst út úr honum. Starfsmaður sem vann við skörun brenndist alvarlega og lést í kjölfarið. Vinnueftirlitið bannaði strax vinnu við ofn 1 en vinna við hina tvo ofna verksmiðjunnar lá einnig niðri um tíma eftir slysið þar til fyrir lá að slysið tengdist sérstökum aðstæðum við framleiðslu 55% kísiljárns í ofni 1. Vinnueftirlitið, lögregla og fyrirtækið sjálft hófu strax rannsókn á slysinu og standa þær rannsóknir enn yfir.
Elkem Ísland hefur á undangengnum vikum unnið að úrbótum til að tryggja öryggi starfsmanna verksmiðjunnar og hefur haft um það samráð við Vinnueftiritið. Þar ber helst að nefna:
? Horfið hefur frá framleiðslu á 55% kísiljárni, sem var nýlega hafin. Verður nú eingöngu unnið 65% kísiljárn í ofnum 1 og 2 en 75% kísiljárn í ofni 3 en löng reynsla og þekking er innan verksmiðjunnar á slíkri framleiðslu. Hráefnisskömmtun í ofna 1 og 2 verður breytt þannig að skammtar verða minnkaðir verulega til að draga úr hættu en mötun tíðari í staðinn. Hráefnisskömmtun í ofn 3 verður óbreytt að sinni enda þar unnið með aðra efnasamsetningu sem skapar ekki sömu hættu. Eftirlit með rakainnihaldi hráefnis verður aukið.
? Áhættumat fyrirtækisins fyrir vinnu við skörun ofna hefur verið endurskoðað og hafa ýmsar öryggisráðstafanir verið gerðar í kjölfarið. Settar hafa verið upp öryggismyndavélar við hvern ofn þannig að hægt verður að fylgjast með vinnslunni úr stjórnstöð  fyrirtækisins. Talstöðvar hafa verið settar í skörungsvagna þannig að starfsmenn séu alltaf í sambandi við stjórnstöð og gerðar endurbætur á vörnum vagnanna. Með minni hráefnisskömmtum og notkun öryggismyndavéla mun viðverutími starfsmanna við skörun ofna styttast til muna.
? Aðgengi að ofnunum hefur verið takmarkað og er nú aðgangsstýrt.
? Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar í samræmi við framangreint. Allir starfsmenn sem koma að vinnu við ofnana hafa fengið upplýsingar og þjálfun í nýju verklagi við ofnana.
Í ljósi framangreindra úrbóta hefur Vinnueftirlitið aflétt banni við vinnu við ofn 1.  Mikilvægasta forsenda þess er að hætt er framleiðslu 55 % kísiljárns og að innmötun hefur verið breytt eins og framan greinir.
Þó rannsókn slyssins sé ekki að fullu lokið er talið víst að orsaka þess að gos varð í ofninum með þeim hörmulegu afleiðingum sem raun ber vitni sé að leita í framleiðsluferlinu og miða ráðstafanir þær sem gerðar hafa verið að því að útiloka slíkt, en jafnframt eru gerðar frekari ráðstafanir en áður til að verja starfsmenn fyrir óvæntum atburðum sem skapa hættu. Vinnueftirlitið mun greina frá niðurstöðum rannsóknar á framangreindu banaslysi jafnskjótt og þær liggja fyrir, sem vænta má að verði síðar í haust.