Fréttir

Forvarnir og aðgerðir gegn einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað - Málþing haldið á Grand Hóteli 5. des. 2007

7.12.2007

Vinnueftirlitið hélt málþing um forvarnir og aðgerðir gegn einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað á Grand Hóteli 5. des. sl. Málþingið var vel sótt, um 90 manns sátu það. Fundarstjóri var Valgeir Skagfjörð, stjórnarformaður Regnbogabarna.
Málþingið var ætlað þjónustuaðilum í vinnuvernd, fulltrúum stjórnsýslu, heilbrigðisstarfsfólki, fulltrúum samtaka á vinnumarkaði, stjórnendum og starfsmönnum á vinnustöðum og öðrum sem áhuga höfðu á málefninu..
Markmið málþingsins var að varpa ljósi á stöðu þessa málaflokks í íslensku samfélagi, leggja áherslu á ábyrgð og skyldur ólíkra aðila, fjalla um hvernig auka megi forvarnir á vinnustöðum gegn einelti og kynferðislegri áreitni og hvernig gera megi viðbrögð markvissari og auka þjónustu við þolendur.

Ása G. Ásgeirsdóttir,  (sjá glærur) fagstjóri í rannsókna- og heilbrigðisdeild  Vinnueftirlitsins, tók fyrst til máls. Hún benti á að markmið  reglugerðar  nr. 1000/2004  væri að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum.
Skilgreining reglugerðarinnar um einelti á vinnustað er þessi:
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur þar undir.

Hjá Ásu kom fram að skyldur atvinnurekenda væru að skipuleggja vinnu þannig að dregið væri úr hættu á að aðstæður skapist sem leitt gætu til eineltis. Þeim bæri ennfremur að gera starfsfólki það ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi sé óheimil, láta slíka háttsemi ekki viðgangast og grípa til viðeigandi ráðstafana. . Ennfremur væri skylt að gera áhættumat og viðbragðsáætlun á hverjum vinnustað þar sem kæmi skýrt fram hver ábyrgð aðila er og til hverra eigi að leita ef einelti kemur upp.

Ása benti á að reynsla Vinnueftirlitsins sýndi að því erfiðara væri að leysa vandann sem gerandinn hefði hærri stöðu. Mikilvægt væri ennfremur að þeir, sem hafi mannaforráð, séu sterkir í mannlegum samskiptum og geti leyst á árangursríkan hátt úr ágreiningi.
Fyrirbyggjandi ráðstafanir væru eftirfarandi: 
Regluleg áhættumatsgerð og endurskoðuð forvarnaráætlun ? vinnuverndarstefna

 • Skýrar starfslýsingar og afmörkun á ábyrgð starfsmanna
 • Fræðsluátak
 • Leiðbeiningar, verklagsreglur og áætlun um viðbrögð við kvörtunum um einelti og  kynferðislega áreitni
 • Sterk og uppbyggileg vinnustaðarmenning, siðræn gildi og traust í samskiptum

Hlutverk Vinnueftirlitsins væri að stuðla að því að vinnuumhverfið verði sem heilsusamlegast og öruggast til frambúðar ? áhersla væri á forvarnir.  Vinnueftirlitið er hlutlaus aðili og hefur ekki heimild til að taka með beinum hætti þátt í úrlausn eineltismála á vinnustöðum. Hjá Vinnueftirlitinu er starfandi eineltisteymi. Vinnueftirlitið er bundið trúnaði gagnvart þeim sem hafa samband og það er alltaf einhver á símavakt sem hægt er að tala við. Ef formlegar kvartanir berast Vinnueftirlitnu hefur eftirlitsmaður samband við atvinnurekanda. Eftirlitsmaðurinn boðar til fundar með honum á vinnustaðnum og athugar hvort áhættumat og viðbragðsáætlun sé til staðar. Hann getur einnig gefið fyrirmæli um að slíkt mat og áætlun sé gerð, sem og að atvinnurekandi leysi úr því máli sem upp er komið. 

Ása fjallaði einnig um undirbúning málþingsins en haldnir voru þrír fundir:
Þann fyrsta með þjónustuaðilum  á sviði sálfélagslegra vinnuumhverfisþátta; annar fundurinn var haldinn með stéttarfélögum og sá þriðji með þolendum eineltis. 

Á fundi með þjónustuaðilum á sviði sálfélagslegra vinnuumhverfisþátta kom m.a. eftirfarandi fram:

 • Upplýsingalög hafa áhrif á hvernig skýrslur/úttektir eru skrifaðar og skapa aðhald
 • Þörf sé á aukinni lögfræðilegri ráðgjöf frá Vinnueftirlitinu
 • Auka þurfi faglega umræðu um sálfélagslegt vinnuumhverfi ? búa til sérstakan hóp innan Vinnuvistfræðifélags Íslands.
 • Orðið einelti sé stundum notað sem vopn í hagsmunaátökum á vinnustöðum
 • Fagaðilar þurfi að hafa skýrar verklagsreglur vegna ráðgjafar í eineltismálum
 • Aðkoma stéttarfélaga að eineltismálum sé ólík milli félaga og oft óskýr

Á fundi með stéttarfélögum kom m.a. fram að:

 • Þolendur koma seint til stéttarfélaga ? oft þegar þeir  hafa gefist upp á  vinnustaðnum
 • Ólík ferli eineltismála séu milli stéttarfélaga
 • Mörg stéttarfélög bjóða sálfræðiaðstoð, námskeið og fræðslu
 • Félögin hvetji trúnaðarmenn til að blanda sér ekki beint í mál einstaklinga
 • Bæklinga vantar á erlendum tungumálum
 • Verklagsreglur vantar fyrir stjórnendur stofnana og fyrirtækja um hvernig  skuli taka á einelti

Leitað var til þolenda eineltis með aðstoð stéttarfélaga og Eineltissamtakanna. Spurningar voru sendar til þessara aðila og fundur haldinn í framhaldinu. Vinnueftirlitið tók saman svörin og kom eftirfarandi fram (í sviga er fjöldi þeirra sem tiltók eftirfarandi lið):

Orsök eineltis/kynferðislegrar áreitni:
Skipulag í vinnu (2)
Stjórnun ( 2)
Persónulegir þættir í fari gerandans (5)
 
Spurt var ennfremur um virkni á atvinnumarkaði í kjölfar eineltis og kom í ljós að enginn þolenda var á sama vinnustaðnum
?  Komin í nýja vinnu (4)
?  Hef ekki fengið aðra vinnu (1)
?  Ég hef ekki getað unnið frá því eineltið/kynferðislega áreitnin hófst (1)

Spurt var hvernig tekið var á eineltismálinu á vinnustaðnum. Svörin voru þessi:

 • Reyndi að tala við yfirmann ? þöggun í framhaldinu
 • í sumum tilvikum ferli sem m.a. fól í sér úttekt ? inngrip sérfræðinga  ? málið dróst en í öllum tilvikum endaði það með því að starfsmaður hætti

Einnig var spurt um hvernig auka mætti úrræði í samfélaginu fyrir þolendur. Svörin voru á þessa leið:

 • Taka þyrfti kvartanir/málið alvarlega frá upphafi
 • Í boði þyrfti að vera ókeypis bráða-sálfræðiþjónusta og lögfræðiþjónusta fyrir  þolendur
 • Aukin fagleg umræða væri nauðsynleg

Þátttakendur voru spurðir hvaða skilaboð þeir vildu  gefa til þeirra sem þessum málaflokki tengjast. Fram kom:

 • Stjórnvöld /ráðuneyti axli meiri ábyrgð ? ekki í lagi að leggja líf fólks í rúst
 • Einelti skapar heilbrigðisvandamál
 • Í stað atvinnurekanda ætti Vinnueftirlitið að vera verkkaupi að skýrslugerð þjónustuaðila
 • Bregðast þyrfti skjótar við þeim kvörtunum sem koma fram
 • Fara þyrfti að upplýsinga- og persónuverndarlögum
 • Stéttarfélög varðveiti hlutleysi sitt gagnvart félagsmönnum ? meðferð eineltismála þurfi einnig að vera skýrari hjá þeim
 • Árlegur forvarnardagur gegn andlegu ofbeldi væri haldinn  í nóvember ár hvert
 • Ekki væri ásættanlegt  að gerendur haldi áfram á vinnustaðnum en þolendur  hrökklist í burtu
 • Stjórnendur sem beiti einelti eigi ekki að vera með mannaforráð
 • Einelti sé neikvætt orð ? nota frekar orðin valdníðsla  eða bolun

Næst tók til máls Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur (sjá glærur). Hún lagði áherslu á að einelti væri endurtekin, niðurlægjandi og/eða neikvæð  framkoma, sem leiði til vanlíðanar hjá fórnarlambinu. Hún rakti aðkomu sína að eineltismálum og málum þar sem kynferðisleg áreitni kemur upp, t.d. veiti hún ráðgjöf til þolenda og fræðslu fyrir vinnustaði. Í máli hennar kom einnig fram að hún aðstoði ennfremur vinnustaði við að útbúa viðbragðsáætlun. Ennfremur væri leitað til hennar við framkvæmd úttektar á eineltismálum að beiðni stéttarfélaga eða atvinnurekenda þar sem eineltismál væru rannsökuð með það að markmiði að skera úr um hvort um einelti væri að ræða eða ekki og síðan væri skilað skýrslu til verkkaupa.

Við rannsókn máls færi fram upplýsingaöflun þar sem m.a. væri rætt við hlutaðeigandi og aðra þá sem gætu gefið upplýsingar þau atriði sem könnuð voru með  upplýstu samþykki viðmælenda. Á fundi með verkbeiðendum væri farið yfir niðurstöður og tillögur og veitt ráðgjöf ef þess er óskað.

Þórkatla benti ennfremur á það hversu afleiðingar eineltis séu alvarlegar  heilsufarslega, bæði andlega og líkamlega, og þeim fylgdu fjarvistir vegna veikinda og að lokum uppsagnir. Einelti lyki oftast með starfslokum þolanda.
 
Lára Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður (sjá glærur) greindi frá sjónarhorni lögfræðings varðandi eineltismál og kynferðislega áreitni. Hvað varðar málsmeðferð og úrræði benti Lára á að einelti er lögbrot, slíkum málum  færi fjölgandi í kjölfar opnari umræðu. Vandi við eineltismál, út frá lögfræðilegu sjónarmiði, væri að þar kæmi til huglæg afstaða þolanda og því erfiðleikar við að færa sönnur á sekt geranda. Hún lagði til að athugað væri hvort hægt væri að breyta sönnunarreglum því að í dag væri ónóg réttarúrræði. Erfiðleikum bundið væri að kæra eineltismál með vísan til vinnuverndarlaga. Annað úrræði væri að fara í einkamál og krefjast skaðabóta.

Lára fjallaði um álitsgerðir sérfræðinga á vinnustöðum og vandamál sem geta komið upp þegar skortur er á faglegum vinnubrögðum þeirra og að skýr vinnuferli væru ekki til staðar. Mikilvægt væri að gæta trúnaðar og best væri ef sömu reglur giltu um skýrslur um eineltismál og um sjúkraskýrslur.

Lára benti á að einelti væri oftast of langt gengið þegar lögmaður kemur að málinu. Þá fælist aðkoma lögfræðingsins í því að samið væri um starfslok, þ.e. gerður væri starfslokasamningur skv. uppsagnarákvæðum kjarasamnings. Almennt  væri ekki samið um miskabætur. Hún benti að  mikilvægt væri að Vinnueftirlitið gerði úttekt á vinnustöðum þar sem einelti kæmi upp og vinnustaðir, þar sem síendurtekið einelti kæmi upp, væru settir á eins konar válista.

Að lokum voru pallborðsumræður með þátttöku eftirfarandi:

Bragi Skúlason, formaður Útgarðs ? félags háskólamanna og sjúkrahúsprestur
Hann var spurður um hver væri reynsla stéttarfélaga í þessum málaflokki á síðustu árum. Bragi sagði frá því að stéttarfélag, sem hann tilheyrði, legði áherslu á að styðja þolendur eineltis og að þessi mál væru vandmeðfarin. Vandi stéttarfélaga liggi í því að þeir séu stuðningsaðilar en ekki úrskurðaraðilar og  það gerist stundum að þau að séu í því hlutverki að vera málsvarar beggja aðila, þ.e. geranda og þolenda. Þeirra verkefni er að styðja frekar en reka málið eða rannsaka.
 
Erna Einarsdóttir, sviðsstjóri skrifstofu starfsmannamála hjá Landspítala, var spurð um innra starf LSH í þessum málaflokki. Erna tók fram að í nýlegri könnun hefði komið fram að einelti mældist 17% á Landspítalanum. Stefna væri til staðar á spítalanum og viðbragðsáætlun sem unnið væri eftir, en í þessum málaflokki  þyrfti markvissa þróun og endurskoðun stefnu og ferla

Kristín Vilhjálmsdóttir, talsmaður Eineltissamtakanna  var spurð hvernig auka mætti þjónustu við þolendur eineltis á vinnustöðum? Hún lagði áherslu á að stjórnvöld þyrftu að sýna meiri ábyrgð og að komið væri á fót eineltisstofu þar sem þolendur gætu leitað til.

Björn Þ. Rögnvaldsson, lögfræðingur Vinnueftirlitsins, minntist á túlkun laga og reglna varðandi eineltismál og ræddi m.a. um skilgreiningu á einelti í reglugerðinni. Benti hann á að í skilgreiningu reglugerðarinnar á einelti væri prentvilla þar sem ?eða? komi í stað ?og? (?ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi? á að vera? ámælisverð og síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi). í lögskýringargögnum (greinargerð með lögunum) kæmi það skýrt fram að um prentvillu sé að ræða.