Fréttir

Forvarnir í fyrirrúmi - ráðstefna VÍS og Vinnueftirlitsins

4.2.2011

Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins setti ráðstefnuna og flutti stutt ávarp þar sem hann skýrði frá samstarfi VÍS og Vinnueftirlitsins. Þórunn Sveinsdóttir deildarstjóri hjá Vinnueftirlitinu var ráðstefnustjóri og Guðmundur Örn Gunnarsson forstjóri VÍS flutti samantekt í ráðstefnulok.

Verðlaun fyrir forvarnastarf til fyrirmyndar voru veitt þremur fyrirtækjum, Serrano veitingahúsakeðjunni, FISK-Seafood á Sauðárkróki og Rio Tinto Alcan í Straumsvík sem auk þess hlaut hinn veglega farandverðlaunagrip VÍS, fyrir framúrskarandi forvarnastarf, til varðveislu næsta árið.

Fyrirlesarar ráðstefnunnar komu frá FISK-Seafood, Slysavarnaskóla sjómanna, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, VÍS, Bændasamtökum Íslands, Vinnueftirlitinu og Serrano veitingakeðjunni.
     Í erindi Hilmars Snorrasonar frá Slysavarnaskóla sjómanna kom fram að banaslysum til sjós hefði fækkað undanfarin ár en aftur á móti hefði öðrum slysum til sjós, sem tilkynnt eru, fjölgað um meira en fimmtung í fyrra frá árinu áður. Árið 2009 hefðu 230 slys verið tilkynnt en 279 árið 2010. Gera þurfi gangskör að því að breyta þessu og hugsanlega sé tímabært að fara nýjar leiðir að settu marki. 
     Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK-Seafood hjó í sama knérunn. Frá árinu 2009 hefur fyrirtækið í samvinnu við Slysavarnaskóla sjómanna og VÍS unnið ötullega að forvörnum með það að markmiði að auka öryggi starfsmanna sinna bæði til sjós og lands. Skipverjar á togaranum Málmey riðu á vaðið á sínum tíma. Með reglubundnu áhættumati og skráningu atvika fækkað slysum og óhöppum svo mjög um borð að ákveðið var að innleiða einnig sama verklag í togarana Örvar, Arnar og Klakk. Jafnframt er ætlunin að taka upp sömu vinnubrögð í landvinnslu fyrirtækisins eins fljótt og unnt er. 
     Unnsteinn Snorri Snorrason ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands ræddi um sérstöðu landbúnaðar gagnvart öryggismálum. Nauðsynlegt sé að stuðla að meira frumkvæði bænda í öryggismálum því margt megi betur fara í þeirra ranni. 
     Friðjón Axfjörð verkefnastjóri hjá Vinnueftirlitinu fjallaði um vinnu  í lokuðu rými þar sem hættulegar aðstæður geta skapast vegna súrefnisskorts, of mikils súrefnis, ryks, sprengifimra og/eða heilsuspillandi lofttegunda. Undanfarna áratugi hafa á hverju ári orðið alvarleg slys við slíkar aðstæður. Afleiðingarnar hafa verið af ýmsum toga; tímabundin veikindi, varanleg örkuml og dauði. Í þessum slysum skipta mínútur og sekúndur sköpum þar sem lífslíkur viðkomandi eru algjörlega háðar öndun.
     Ólafur Ingimarsson þjónustustjóri hjá VÍS fór yfir ýmsar tölulegar upplýsingar sem fram hafa komið við gerð stöðumats hjá fyrirtækjum. Í fyrra voru skoðuð 613 fyrirtæki og 2009 voru þau 287. Úr upplýsingunum má meðal annars lesa að í 87% tilfella er ekki búið að gera áhættumat og í níu af hverjum tíu fyrirtækjum eru atvik sem leiða til slyss eða óhapps ekki skráð. Þá er ekki brunaviðvörunarkerfi hjá þriðjungi fyrirtækjanna og í 65% tilfella hafa starfsmenn ekki verið þjálfaðir í meðferð slökkvitækja.
     Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins fjallaði um fyrirmyndareldvarnir fyrirtækja og hvort stjórnendur þeirra væru "eldklárir".
     
Emil Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Serrano gerði grein fyrir öryggismenningu og áhættumati í matvælaiðnaði og útskýrði hvernig þessir þættir eru innbyggðir í gæðakerfi fyrirtækisins.

Rúsínan í pylsuendanum var svo afhending verðlauna fyrir forvarnastarf sem Serrano, FISK-Seafood og Rio Tinto Alcan hlutu eins og áður hefur komið fram.

forvarnaradstefna_vis_2011-5
Fulltrúar VÍS og Vinnueftirlitsins ásamt fyrirlesurum ráðstefnunnar. F.v.: Unnsteinn Snorri Snorrason Bændasamtökunum, Emil Helgi Lárusson Serrano, Guðmundur Örn Gunnarsson forstjóri VÍS, Ólafur Ingimarsson VÍS, Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins, Þórunn Sveinsdóttir ráðstefnustjóri, Jón Viðar Matthíasson Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, Hilmar Snorrason Slysavarnaskóla sjómanna, Jón Eðvald Friðriksson FISK-Seafood, Friðjón Axfjörð Vinnueftirlitinu og Gísli Níls Einarsson VÍS. Á myndina vantar Halldór Halldórsson fulltrúa Rio Tinto Alcan sem tók við verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins.