Fréttir

Forvarnir í fyrirrúmi - ráðstefna VÍS og VER

5.2.2010

Forvarnir í fyrirrúmi ? ráðstefna
Fimmtudaginn 4. febrúar var haldin opin ráðstefna um forvarnarmál fyrirtækja og annarra lögaðila. Ráðstefnan var samstarfsverkefni VÍS og Vinnueftirlitsins og var haldin í húsakynnum VÍS við Ármúla.
Málefni ráðstefnunnar var áhættumat fyrirtækja og atvikaskráning undir heitinu Forvarnir í fyrirrúmi. Um 160 gestir sóttu ráðstefnuna sem stóð frá kl. 13 til 16.
Forstjóri VÍS Guðmundur Örn Gunnarsson setti ráðstefnuna og kynnti samstarf VÍS og Vinnueftirlitsins.
Guðmundur Kjerúlf frá Vinnueftirlitinu kynnti og útskýrði gerð áhættumats í upphafi ráðstefnunnar. Þá sýndu fulltrúar nokkurra fyrirtækja hvernig þeir hafa unnið áhættumat og atvikaskráningu í fyrirtækjum sínum. Erindi þeirra voru m.a. áhættumat og forvarnir sveitarfélaga, áhættumat á bifreiðaverkstæði, áhættumat á vélaverkstæði, atvikaskráning hjá Strætó bs., og atvikaskráning hjá Alcan.
Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlitsins kynnti niðurstöður rannsókna á slysum í bændastétt ásamt áhættumati í þeirri atvinnugrein.
Forvarnarverðlaun VÍS fyrir framúrskarandi vinnu og árangur í forvörnum voru afhent þremur fyrirtækjum en þau voru Bílson bílaverkstæði, Strætó bs. og Þörungavinnslan á Reykhólum sem hlaut einnig nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki í forvörnum og hlaut fyrirtækið jafnframt veglegan farandgrip til varðveislu næsta árið.
Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins lauk síðan ráðstefnunni með samantekt erinda og kynningu á áherslum Vinnueftirlitsins 2010. Fram kom í máli Eyjólfs að athygli vekti og ánægju hve fyrirtækin beittu mismunandi nálgunum við gerð áhættumats og forvarna þótt allir stefndu að sama markmiði og næðu svipuðum árangri. Að lokum hvatti hann ráðstefnugesti til frekari sigra í forvörnum og óskaði góðs gengis.