Fréttir

Fléttur II Kynjafræði - Kortlagningar

13.4.2005

Nýlega kom út á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands ritið Fléttur II Kynjafræði ? Kortlagningar undir ritstjórn Irmu Erlingsdóttur. Í ritinu er fjöldi greina sem flestar eru byggðar á erindum er flutt voru á ráðstefnu Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) haustið 2002. Ráðstefnunni var ætlað að veita innsýn í þverfaglegt rannsóknastarf á sviði kvenna- og kynjafræða hérlendis. ?Greinarnar í bókinni, 24 að tölu, spegla þá miklu breidd sem er í kynjarannsóknum hér á landi, í öllum fögum og á öllum sviðum? eins og segir í formála ritsins. Tveir starfsmenn á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins eiga efni í ritinu: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir sem skrifaði greinina Vinnuumhverfi, líðan og kynferði og Hólmfríður K. Gunnarsdóttir sem skrifaði grein undir heitinu Þær bjargast helst sem ferðast á fyrsta farrými; Um tengsl félagslegrar stöðu og heilsufars.

Í grein Guðbjargar Lindu er vitnað til rannsókna sem hafa sýnt að konur sækja meir en karlar til heilsugæslulækna vegna eigin heilsufars. Hún leiðir líkum að því að konum líði verr en körlum vegna mismunandi aðstæðna bæði á vinnumarkaði og heima fyrir. Draga megi þá ályktun að kynjamisrétti sé talsvert á íslenskum vinnumarkaði. Erlendar rannsóknir hafi sýnt tengls á milli lágra tekna og vanlíðunar. Því megi ætla að kynjaskiptur vinnumarkaður og launamunur kynjanna sé meðal þess sem skýri ójöfnuð í heilsufari og líðan kvenna og karla.

Í grein Hólmfríðar er vísað til þess að konur á fyrsta farrými farþegaskipsins Titanic fórust mun síður en konur á öðru og þriðja farrými. Örlög kvennanna á Titanic koma heim og saman við það sem sýnt hefur verið fram á með fjölda rannsókna að dánartíðni er lægst meðal þeirra sem best mega sín þ.e. búa við góð efni, hafa menntast og sinna áhugaverðum, vellaunuðum störfum. Lífshættir eru mismunandi í mismunandi hópum og það hefur einnig áhrif á heilsufarið. Ójöfnuður í heilsufari þjóðfélagshópa sést yfirleitt skýrar hjá körlum en konum þegar viðteknum aðferðum er beitt. Þetta vekur spurningar um það hvort viðteknir mælikvarðar henti þegar heilsufar kvenna er skoðað.