Fréttir

Fjölgun dauðaslysa - Fréttatilkynning

8.9.2008

Fréttatilkynning, 8. september 2008

Í tilefni af fjölgun dauðaslysa á vinnustöðum                                               
Dreifibréf með áskorun til
forsvarsmanna fyrirtækja með erlenda starfsmenn


Vinnueftirlitið hefur sent út dreifibréf  til forsvarsmanna fyrirtækja, sem hafa erlenda starfsmenn í vinnu,  með áskorun um að fyrirtækin geri víðtækt átak í öryggis-,  heilbrigðis- og fræðslumálum á vinnustöðunum. Ástæða þessa bréfs er sú óheillaþróun sem orðið hefur á undanförnum árum þar sem dauðaslysum við vinnu hefur fjölgað.
Frá ársbyrjun 2006 til þessa dags, þ.e. á um tveimur og hálfu ári, hafa 13 manns látist í vinnuslysum á Íslandi, 6 Íslendingar og 7 erlendir starfsmenn. Þetta er mikil fjölgun dauðaslysa frá næstu árum á undan en á fimm ára tímabilinu 2001?2005 létust 10 í dauðaslysum við vinnu, allt Íslendingar. Flest þessara slysa hafa orðið við bygginga- og mannvirkjagerð.

Efni dreifibréfsins er í meginatriðum eftirfarandi:

  • Atvinnurekendur eru hvattir til að skipuleggja öfluga þjálfunar- og fræðsluáætlun fyrir starfsmenn sína, með sérstaka áherslu á nýliða. Með því móti geta atvinnurekendur rækt þá skyldu að trygga að allir starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun, sem er ein af forsendum öflugs forvarnarstarfs. Þannig má einnig koma til móts við kröfuna um að upplýsa starfsmenn um hættur sem kunna að fylgja ákveðnum verkum. Sérstaka áherslu skal leggja á upplýsingar, fræðslu og þjálfun til erlendra starfsmanna og gæta þess að takmörkuð málakunnátta verði ekki til þess að draga úr öryggi og nauðsynlegum samskiptum.
  • Samkvæmt vinuverndarlögunum (nr. 46/1980) og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum (nr. 920/2006) eiga öll fyrirtæki að hafa gert áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Þau sem hafa ekki gert það nú þegar skulu hefja það starf tafarlaust. 
  • Skv. reglum nr. 547/1996 um byggingarvinnustaði og tímabundna mannvirkjagerð skulu fyrirtækin í þeirri atvinnugrein gera sérstaka áætlun  um öryggi og heilbrigði. 
  •  Þar sem fleiri en einn verktaki er að störfum á framkvæmdasvæði skulu verktakar vinna saman að öryggis- og forvarnarmálum. Aðalverktaki skal hafa frumkvæðið og bera ábyrgð á samstarfinu.
  • Vinnueftirlitið hefur gefið út á fjórum tungumálum myndskreyttan bækling með stuttum texta um öryggi í byggingariðnaði. Bæklingurinn er fáanlegur á íslensku, ensku, pólsku og litháísku.
  • Bent er á fjölbreytilegt efni á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, sem varðar öryggi og innra vinnuverndarstarf, bæði lög og reglur, ýmsar leiðbeiningar við gerð áhættumats og skipulag forvarna og vinnuverndarnámskeið Vinnueftirlitsins.


Þeir atvinnurekendur, sem málið varðar og hafa ekki fengið áskorunina í hendur, eru eindregið hvattir til að sækja hana hér