Fréttir

Fjarkennsluverkefni um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum

30.8.2007

Hraust saman

Heilsuefling á vinnustöðum
með áherslu á smáa og meðalstóra vinnustaði

Fjarkennsluverkefnið Hraust saman - eða "Healthy Together" eins og það kallast á ensku - sem Vinnueftirlitið stýrir hefur hlotið styrk úr Leonardo da Vinci starfsmenntaáætluninni til tveggja ára (október 2006-október 2008).

Þrjú Evrópulönd taka þátt í verkefninu: Ísland, Írland og Ítalía. Íslensku þátttakendurnir eru: Vinnueftirlitið (verkefnisstjórn),  Háskólinn í Reykjavík og Lýðheilsustöð. Þeir aðilar frá Írlandi sem taka þátt í verkefninu eru Health Services Executive í Galway og  National University of Ireland í Galway og fulltrúi Ítala er University of Perugia.

Markmið verkefnisins er að stuðla að góðri heilsu vinnandi fólks á litlum og meðalstórum vinnustöðum þ.m.t. á landsbyggðinni. Þessa dagana er verið að vinna fjarkennsluefni og á komandi vetri (feb.-mars 2008) verða haldin námskeið á háskólastigi um forvarnir og heilsueflingu á vinnustöðum í öllum þátttökulöndum verkefnisins.

Námskeiðið er ætlað þeim sem starfa við vinnuvernd og heilsueflingu á vinnustöðum, þeim sem áhuga hafa á að sinna slíkum verkefnum sem og stjórnendum á vinnustöðum. Helsta nýlunda verkefnisins er að skapaður verður vettvangur þar sem hagsmunaaðilar, þ.m.t. á landsbyggðinni, geta öðlast þekkingu á því hvernig megi efla heilsu vinnandi fólks á litlum og meðalstórum vinnustöðum og nýta til þess þau úrræði sem eru til staðar í heimabyggð þeirra.

Síðasta vetur var gerð þarfagreining fyrir verkefnið. Haldnir voru fundir með rýnihópum í löndunum þremur og gerð rafræn spurningakönnun. Helstu niðurstöður þarfagreiningarinnar voru eftirfarandi:

- Leggja þarf meiri áherslu á þjálfun þeirra sem starfa eða vilja starfa að heilsueflingu og forvörnum á vinnustöðum.
- Samstarf allra hagsmunaaðila í sveitarfélögum er afar mikilvægt
- Þörf er á að útbúa leiðbeiningar, gátlista og önnur tól sem nýst geta við að efla heilsu vinnandi fólks.
- Skortur er á fræðsluefni og þá sérstaklega efni er varðar streitu og andlega heilsu á vinnustöðum.
- Mikilvægt væri að beita aðferðum sem virkja stjórnendur og starfsmenn á markvissan hátt við að undirbúa og koma á heilsueflingu á vinnustöðum.

Þegar á heildina er litið sýndu niðurstöður að mikil þörf er fyrir nýjar aðferðir og fræðsluefni fyrir heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.