Fréttir

Evrópubúar telja að vinnutengd streita muni aukast mikið á næstu árum

2.4.2012

Í nýrri könnun sem gerð var á vegum evrópsku vinnuverndar-stofnunarinnar (EU-OSHA) meðal 36 Evrópulanda, kemur fram að 47% Íslendinga telja að vinnutengd streita muni aukast á næstu árum. Þar af voru 27% sem töldu það mjög líklegt en 20% að það væri fremur líklegt. Þó þetta hlutfall megi teljast hátt þá kemur fram að 77% allra þátttakenda allra landanna telja að streita muni aukast mjög mikið eða fremur mikið á næstu árum. Í könnuninni er jafnframt leitað eftir viðhorfi þátttakenda til mikilvægis vinnuverndarstarfs svo starfsævi geti orðið löng og farsæl. Íslendingar eru þar efstir meðal Evrópuþjóða, en 77% Íslendinga telja vinnuverndarstarf mjög mikilvægt á meðan 56% Evrópubúa í heild telja svo vera. Flestir Evrópubúar telja að stjórnendur muni taka mark á kvörtunum sem varða öryggi og heilbrigði á vinnustað eða 74% og hjá Íslendingum einum er það álit 86% þátttakenda.
Nánar má lesa um þessa rannsókn á vef evrópsku vinnuverndar-stofnunarinnar: http://osha.europa.eu/en/safety-health-in-figures/index_html#tabs-2