Fréttir

Erindi um raddheilsu kennara

27.2.2006

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir.

Það er málið! Um raddheilsu kennara

Valdís I. Jónsdóttir heldur erindi í hádegisfundaröð Rannsóknastofu í vinnuvernd um röddina sem atvinnutæki kennarans. Valdís Jónsdóttir er doktor í talmeinafræðum frá Háskólanum í Tampere í Finnlandi. Hún er sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur og hefur stundað rannsóknir og fræðslu á því sviði.

Það er sama hve mikilli þekkingu kennarinn hefur yfir að búa, ef röddin bregst þá kemur hann ekki þekkingunni til skila. Því miður hafa rannsóknir sýnt að almennt ástand á rödd kennara er slæmt og hún berst illa til nemenda. Ástæður fyrir bágri raddheilsu eru aðallega raktar til slæmra umhverfisskilyrða, eðli starfsins, þekkingaleysis kennarans á getu og takmörkunum eigin raddar og ekki hvað síst til almenns þekkingaleysis á hvaða umhverfisþættir geta skaðað röddina. Á meðan kennsla byggist upp á því að nemendur heyri það sem kennari hefur fram að færa er nauðsynlegt fyrir kennarann að:

- Þekkja þær umhverfisaðstæður sem geta skaðað röddina.

- Vita hvernig og hvers vegna umhverfisaðstæður geta komið í veg fyrir að nemendur heyri það sem kennarinn hefur fram að færa.

- Geta áttað sig á því hvernig röddin hagar sér í hávaða og fjarlægð og hvað gerist ómeðvitað í raddbeitingu undir slíkum aðstæðum.

-  Læra hvernig hægt er með æfingum að losa um raddþreytu og koma jafnvel í veg fyrir hana.

- Vita hvað þarf að varast í daglegu lífi til að koma í veg fyrir raddskaða.

- Læra inn á líffræðina sem býr að baki raddmyndun til þess að geta komið í veg fyrir raddskaða.

- Þekkja inn á hlustunargetu nemenda til þess að geta staðsett þá rétt í kennslustofu.

Staður: Háskóli Íslands, Lögberg, stofa 103
Stund: Föstudagurinn  3. mars kl. 12 ? 13.

Fundurinn er opinn öllum.
Rannsóknastofa í vinnuvernd  http://www.ver.is/riv