Fréttir

Er óhollt fyrir konur að vinna á loftpressu eða glussafleyg?

9.1.2006

Svar:

Áhættuþættir tengdir því að vinna með loftpressu eða glussavél geta tengst þyngd þeirra véla og þeim titring sem þær valda á líkama starfsmannsins.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um þessi tæki geta loftpressur vegið 25-50 kg og glussafleygur allt að 30 kg.

Reglur um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar (nr.499/1994) kveða á um að gera skuli ráðstafanir eða nota hjálpartæki til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að lyfta byrðum, til að draga úr hættu á heilsutjóni, sérstaklega bakmeiðslum.

Samkvæmt matskerfi á álagi og vinnuskilyrðum sem Vinnueftirlitið gaf út 1994 er miðað við að heilsutjóni getur hlotist af því að lyfta byrðum á bilinu 10-25 kg. Þá er nauðsynlegt að gera áhættugreiningu og meta hina ýmsu neikvæðu þætti sem vinnan getur falið í sér. Þættir eins og tímalengd verkefna, hve oft er lyft, kunnátta starfsmanna í góðri líkansbeitingu og vinnutækni og styrkur starfsmanna ráða þarna miklu um.

Þegar lyfta þarf þyngdum yfir 25 kg er aukin hætta á heilsutjóni. Að lyfta 25 kg einu sinni veldur ekki endilega heilsutjóni, en ef þörf er á endurtekningum gæti það orðið og telst óviðunandi.

Þær upplýsingar sem ég hef um áhrif titrings á líkamann gefa til kynna að aukin hætta er á bakvandamálum hjá þeim sem vinna á vélum / með vélar sem valda titringi á allan líkamann.

(Kelsey,1975; Kelsey and Hardy,1975; Troup,1978; Frymoyer er al.,1980, 1983; Wilder er al.,1982; Pooe ert al.,1984)

Um það hvort það er hættulegra konum en körlum að vinna á loftpressu eða glussafleyg má segja að almennt eru konur minni og veikbyggðari en karlar og því líklegri til að verða fyrir álagseinkennum vegna erfiðisvinnu. Undantekningar eru að sjálfsögðu á þessu og sumar konur geta haft styrk og burði á við karlmenn. Því er þetta alltaf háð líkamsburði einstaklinga en ekki kyni.

Varðandi þungaðar konur gilda reglur nr.931/2000 um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar. Í þeim er tekið fram að titringur er áhættuþáttur á (vissum tíma ) á meðgöngu og þarf því að taka tillit til þess við gerð áhættumats í samræmi við reglugerðina.

Kveðja.

Berglind Helgadóttir

sjúkraþjálfari Vinnueftirlitsins