Fréttir

Er fingurgull til góðs?

11.2.2008

Hér má sjá þau dæmi frá árinu 1991 sem finna má í slysaskrá Vinnueftirlitsins þar sem hringur á hendi átti þátt í að viðkomandi starfsmaður slasaðist alvarlega

...Hinn slasaði var að fara niður af vörubílspalli þegar giftingarhringur hans festist í pallinum og hann féll með þeim afleiðingum að fingurinn brotnaði og fór mjög illa.

...Tildrög slyssins voru þau að hinn slasaði hugðist opna hurð á lyftara. Húnninn virkaði ekki. Þá teygði hann hönd sína inn um gluggann og opnaði hurðina innan frá. Við það kræktist hringur á baugfingri í rennu, sem er fyrir neðan gluggann með þeim afleiðingum að fingurinn rifnaði þannig að sauma þurfti 6 spor.

...Tildrög slyssins voru þau að slasaði var að tengja rafgeymi þegar giftingarhringur rakst í tengivírinn með þeim afleiðingum að hringurinn glóðhitnaði og brenndi fingur slasaða að innanverðu. Slasaði fékk síðan blóðeitrun í fingurinn.

...Slasaði vann á gröfu. Þegar hann var á leið út úr tækinu tók hann með hægri hendi í þrep og stökk niður. Hringur á baugfingri hægri handar festist í haki á þrepinu með þeim afleiðingum að hann skarst inn í fingurinn. Hinn slasaði fór strax til staðarhjúkrunarfræðings og þaðan til frekari meðferðar hjá lækni.

...Slasaði var að fara að stíga út úr Ford Econoline bifreið að aftan er hann krækti fæti í pappakassa sem var í bifreiðinni. Við þetta missti hann jafnvægið og steyptist fram fyrir sig út úr bifreiðinni. Hann greip ósjálfrátt í handfang hurðarinnar sem var opin til að verjast fallinu en við það kræktist giftingarhringur hans á einhvern hátt í hurðina með þeim afleiðingum að hann skarst inn í fingurinn er slasaði féll úr bifreiðinni.  Fingurinn skarst inn í sin á fingrinum.

...Slasaði var að skoða farm á vörubílspalli til að athuga hvort það væri í lagi að sturta af honum á planið. Þegar hann fer niður af pallinum festist hringur sem hann var með á hægri hendi með þeim afleiðingum að holdið skarst frá beininu.

...Slasaði stóð í stiga við lúguop. Þegar hann féll til jarðar festist hringur á baugfingri vinstri handar á vinkli.

...Slasaða var að ganga út úr herbergi þegar hringur á baugfingri hægri handar festist í hurðarlæsingarjárni og tognaði fingurinn.

Ýmis fróðleikur
Samantekt:     Kristinn Tómasson
                       Yfirlæknir vinnueftirlitsins