Fréttir

Enn vantar notkunarleiðbeiningar á íslensku með persónuhlífum!

24.6.2004

Út er komin skýrsla með niðurstöðum samnorræns verkefnis sem fram fór á árunum 2002 og 2003 um markaðseftirlit með persónuhlífum. Þátttökulöndin voru Danmörk, Finnland, Noregur, Ísland og Svíþjóð.
Að auki tóku sænsku neytendasamtökin þátt í verkefninu.
Markmið verkefnisins var að auka þekkingu á gildandi reglum hjá framleiðendum, innflytjendum og seljendum persónuhlífa. Tilgangurinn var að fyrirtækin tryggi sjálf að vörur þeirra uppfylli gildandi kröfur. Jafnframt fór fram úrtakskönnun á persónuhlífum hjá seljendum.

Fræðslu- og upplýsingaátak fór að mestu fram árið 2002. Fræðslan var unnin m.a. í samvinnu við samtök framleiðenda persónuhlífa á Norðurlöndunum.
Námskeið um persónuhlífar var haldið í Reykjavík vorið 2003 í samvinnu við Löggildingarstofu og Staðlaráð fyrir framleiðendur, innflytjendur og seljendur persónuhlífa til atvinnu og einkanota. Námskeiðið stóð í einn dag og fjallaði m.a. um lög og reglur, tilskipanir, staðla, CE merkið og samræmingarferlið vegna CE merkinga, markaðseftirlit og ábyrgð og skyldur framleiðanda og seljenda. Þátttakendur á námskeiðinu voru alls 11 frá flestum stærstu fyrirtækjunum í þessari grein.

Í ljós kom að aðilar markaðarins höfðu mikinn áhuga að fá fræðslu og upplýsingar um hvaða reglur gilda fyrir framleiðendur, innflytjendur og seljendur persónuhlífa.
Í framhaldinu var síðan settur upp persónuhlífavefur með helstu upplýsingum er varða þetta efni. (sjá vef)

Úrtakskönnunin var gerð á árinu 2003. Hvert land skoðaði tilteknar gerðir persónuhlífa og í hlut Íslands komu hjálmar. Könnunin var unnin í samvinnu við Löggildingarstofu. Heimsóttir voru 14 sölustaðir persónuhlífa þar sem skoðaðir voru samtals 24 tegundir öryggishjálma til atvinnunota og 12 hjálmar til einkanota. Könnunin beindist einkum að því hvort hjálmarnir bæru CE- merkið og hvort þeim fylgdu notkunarleiðbeiningar á íslensku. Af 24 hjálmum til atvinnunota kom í ljós að með 19 hjálmum (79%) fylgdu ekki notkunarleiðbeiningar á íslensku og CE- merkið vantaði á 2 hjálma. Ein tegund hjálma var send til prófunar til ?samþykkts aðila? (prófunarstofu). Niðurstaða prófunarinnar leiddi í ljós að þessi tegund hjálma uppfyllti ekki gildandi EN-staðal um hjálma. Viðkomandi tegund er ekki lengur flutt inn.

Úrtakskönnunin sýndi að veruleg breyting til batnaðar hefur orðið á markaðnum ef borið er saman við fyrri samnorræn verkefnin sem gerð voru árin 1995-1996 og 2000-2001. Enn vantar þó á að öllum persónuhlífum fylgi leiðbeiningar á íslensku.

Sjá skýrslu