Fréttir

Ekki kaupa köttinn í sekknum!

6.9.2011

Ef þér er boðinn, eða þú finnur á netinu lyftara eða annað tæki á mun hagstæðara verði en gengur og gerist er rétt að skoða málið og kanna hvað búi að baki. Tilboð sem virðast of góð til að vera sönn eru stundum einmitt það - of góð til að vera sönn.
     Eitt af því sem ber að kanna er CE-merkið sem á að vera til staðar á flestum vélum og tækjum sem framleidd eru 1997 eða síðar og notuð eru á vinnustöðum. Ef CE-merkið vantar getur það skýrt lága verðið og tæki án CE-merkinga getur verið varasamt að kaupa þó verðið virðist við fyrstu sýn hagstætt. 
     En er þetta CE-merki eitthvað sem skiptir máli...? Jú, það skiptir máli og ef það vantar getur það þýtt mikinn kostnað og óþægindi fyrir innflytjandann, seljandann, kaupandann og notandann. Allir eiga þeir á hættu að verða fyrir óþægindum og tapi.
     Eitthvað er um að tæki án CE-merkinga séu boðin á markaði í Evrópu. Sjaldnast eru það þó  framleiðendur tækjanna eða umboðsmenn þeirra sem bjóða slík tæki en oftar er um að ræða minni og lítt þekkta innflutnings- og söluaðila. Tækin geta verið frá viðurkenndum framleiðendum, Toyota, Mitsubishi o.fl. o.fl. en það eru sjaldnast umboðsaðilar þeirra sem eru að bjóða tækin. Að kaupa þekkt og viðurkennd merki er í sjálfu sér viss trygging fyrir gæðum en ekki trygging fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru á viðkomandi markaðssvæði. Kröfur markaðssvæðanna eru mismunandi og ef t.d. lyftarinn er ódýr, boðinn af aðila sem ekki er umboðsaðili framleiðanda og er án CE-merkisins þá eiga allar viðvörunarbjöllur að hringja. Þá eru allar líkur á að lyftarinn hafi verið framleiddur fyrir Asíu, Afríku eða einhvern annan markað en Evrópu. Ekki þar með sagt að lyftarinn sé stórhættulegur en það er engin trygging til staðar fyrir því að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í Evrópu varðandi m.a. öryggi og umhverfi. Kröfurnar eru skilgreindar í Evróputilskipunum, sem innleiddar eru sem reglugerðir í hverju landi og kröfurnar eru síðan nánar skilgreindar í Evrópustöðlum. Framleiðandinn festir CE-merkið á tækið að undangengnu áhættu- og samræmismati þar sem hann er búinn að fullvissa sig um og gefa til kynna að tækið uppfylli kröfur staðla og reglugerða á Evrópusvæðinu, þ.e. að samræmi sé við gildandi kröfur. Kröfurnar geta verið það mismunandi milli markaðssvæðanna að þó ekki sjáist munur á útliti lyftara milli markaðssvæða þá er t.d. engin trygging fyrir því að varahlutir séu þeir sömu. Viðhald á lyftaranum getur þar með orðið erfiðara því þó útlitið sé svipað, að frátöldu CE-merkinu, getur verið erfitt að nálgast varahluti í hann. Varla er t.d. hægt að reikna með því að umboðsaðilar í Evrópu eigi á lager varahluti í tæki sem eingöngu eiga að fara á markað í Asíu eða Afríku? Í besta falli getur þetta því lengt bið eftir varahlutum en í versta tilfelli getur orðið erfitt að fá réttu hlutina.
     En þó svo við eitt augnablik gæfum okkur að lyftarinn væri jafngóður og CE-merktur lyftari og umboðsaðilinn veitti fulla ábyrgð og jafnframt útvegaði varahluti fljótt og örugglega þá er samt hætt við að upp kæmu vandamál. Lyftari sem ekki er CE-merktur og ekki búinn að undirgangast það ferli sem CE-merkingin grundvallast á, fæst að öllu jöfnu ekki tollafgreiddur hér á landi. Ef hann einhverra hluta vegna kæmist til landsins, þá fengist hann hvorki skráður né skoðaður eins og skylt er þegar um slík tæki er að ræða og væri notkun hans því bönnuð.
Ef hægt væri að komast fram hjá öllu þessu er alltaf sú hætt til staðar að illa fari. Ef slys verður er hætt við að tryggingarfélagið neitaði að greiða tryggingarbætur þar sem um ólöglegt tæki hafi verið að ræða. Tækið er jú ekki löglegt á Evrópusvæðinu. Hver situr þá uppi með tjónið..? Og verði úr þessu frekari málaferli, hvert sækir sá sem varð fyrir tjóninu eða slysinu sínar bætur þegar tryggingarfélagið, réttilega, neitar bótaábyrgð. Varla nema einn aðili eftir, þ.e. sá sem á og rekur tækið.
     Erfitt og kostnaðarsamt getur verið að CE-merkja tækin eftir á og reyndar í sumum tilvikum óhugsandi. Til að geta unnið samræmismatið, þ.e. kannað hvort tækið uppfylli þær kröfur sem gerður eru á Evrópusvæðinu, þarf tækniskjölin, þ.e. skjölin sem geyma upplýsingar um hvernig tækið var hannað og framleitt og út frá hvaða forsendum. Einungis framleiðendur og hönnuðir hafa þær upplýsingar og eingöngu opinberir aðilar geta kallað eftir þeim. Tækniskjölin eru ekki aðgengileg öðrum og því erfitt fyrir utanaðkomandi aðila að meta hvort tækið uppfylli kröfurnar þegar allar upplýsingar um hönnun og framleiðslu vantar. Í vissum tilvikum geta viðurkenndir aðilar kannað hver munurinn er á reglugerðum og stöðlum milli markaðssvæða og gert eða látið gera rannsóknir og prófanir til að kanna hvort þær kröfur sem gerðar eru í Evrópu umfram það markaðssvæði sem lyftarinn var framleiddur fyrir séu uppfylltar en slíkt getur fljótt orðið mjög tímafrekt og kostnaðarsamt.
Þá er ein leið eftir, flytja tækið út af Evrópusvæðinu og selja það á viðeigandi markaðssvæði með þeim kostnaði sem því fylgir.
     Til að varast að lenda í ógöngum og jafnvel sitja uppi með ólögleg tæki, t.d. lyftara sem ekki fæst skráður hérlendis er hægt að gera eftirfarandi:
? Kanna hvort lyftarinn sé CE-merktur,
? skoða þau gögn varðandi samræmismat og þær leiðbeiningarnar (á íslensku), sem fylgja,
? kanna hjá viðurkenndum umboðsaðila framleiðanda tækisins hvort tækið sé framleitt fyrir Evrópumarkað.
Ef spurningar vakna er einnig hægt að hafa samband við þá opinberu aðila sem sinna markaðseftirliti hérlendis, t.d. Vinnueftirlitið, Neytendastofu, o.fl.
En endilega forðist að kaupa köttinn í sekknum, hann getur orðið dýr þegar upp er staðið.