Fréttir

Einelti á vinnustað - rannsókn á þremur opinberum vinnustöðum

27.3.2006

Dagrún Þórðardóttir heldur erindi í hádegisfundaröð Rannsóknastofu í vinnuvernd um rannsóknina Einelti á vinnustað ? rannsókn á þremur opinberum vinnustöðum.

Rannsóknaverkefnið er lokaverkefni í meistaranámi í stjórnun og stefnumótun við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Staður: Háskóli Íslands, Lögberg stofa 102.
Stund: Föstudagurinn 31. mars kl. 12.15 ? 13.15

Fundurinn er opinn öllum


Útdráttur:

Inngangur:
Einelti  á vinnustað er talið geta valdið þeim sem fyrir verða miklum skaða og vanlíðan og skipulagsheildum og þjóðfélaginu miklu fjárhagslegu tapi því er mikilvægt að komast að því hvernig unnt sé að fyrirbyggja eða koma í veg fyrir það.

Markmið:
Markmið rannsóknarinnar var að kanna einelti á vinnustað.

Efniviður og aðferðir:
Þrjár skipulagseiningar með samtals 160 starfsmönnum voru teknar til skoðunar. Gerð var megindleg- og eigindleg rannsókn. Megindlega rannsóknin var fjórskipt. Sendur var út spurningalisti með Outcome könnunarkerfinu. Spurt var hvort viðkomandi hefði reynslu af einelti eða hefði orðið vitni að einelti. Ef svo var, þá var spurt um þróun eineltisins og til hvaða ráða hefði verið gripið til að sporna gegn því. Fjórði og síðasti hluti könnunarinnar var að athuga ýmsa stjórnunarlega og sálfélagslega þætti í vinnuumhverfinu. Eigindlega rannsóknin fólst í viðtölum þar sem kannað var hvað gert væri á vinnustöðunum þremur til að leysa eineltismál.

Niðurstöður:
Svarhlutfall var rúmlega 70%. Alls höfðu 15.9 % þátttakenda sem svöruðu könnuninni orðið fyrir einelti. Ef  eineltið er skoðað út frá þýðinu hafa 10.6% starfsmanna orðið fyrir einelti. 17.5% höfðu orðið vitni að einelti á sinni deild og 27% höfðu orðið vitni að einelti annars staðar í skipulagsheildinni. Svörin sýna að í flestum tilfellum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi. Sterk tengsl fundust milli eineltis annars vegar og starfsanda, viðhorfs til stjórnenda og vinnunnar hins vegar.

Umræða:
Meiri líkur eru á að viðunandi lausn náist í eineltismálum ef skipulagsheildir setja sér stefnu um hvernig tekið er á einelti ef það kemur upp á vinnustaðnum. Sterkar vísbendingar eru um að stjórnunarstíll í skipulagsheildum   geti dregið úr möguleikum til að fyrirbyggja eða leysa eineltismál.