Fréttir

Eiga hárgreiðslukonur erfiðara með að verða ófrískar

9.1.2006

Fyrirspurnir hafa borist til Vinnueftirlitsins vegna fréttar í Fréttabréfinu 3/1 2002 um að hárgreiðslukonur eigi erfiðara en aðrar konur með að verða ófrískar. Fréttin var byggð á viðtali í Dagens Nyheter við Lars Rylander, einn af aðstandendum rannsóknarinnar.

Samkvæmt upplýsingum sem undirrituð fékk hjá Önnu Axmon, samstarfsmanni Rylanders, hafa niðurstöður rannsóknarinnar ekki enn birst opinberlega í viðurkenndu vísindariti en bráðabirgðaniðurstöður hafa birst í fréttabréfi Atvinnu- og umhverfisheilbrigðismiðstöðvarinnar í Lundi og Málmey og verið kynntar á ársþingi sænskra lækna.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu virðist rannsóknin leiða í ljós að heldur lengri tíma taki fyrir hárgreiðslukonur en aðrar konur að verða ófrískar en um 10% færri hárgreiðslukonur en aðrar konur urðu þungaðar á tilteknu tímabili þótt vilji væri fyrir hendi hjá báðum hópunum. Konur með skerta frjósemi voru einnig fleiri meðal hárgreiðslukvenna, 14% samanborið við 12% í samanburðarhópnum. Á hinn bóginn virtust fósturlát ekki tíðari meðal hárgreiðslukvenna en annarra. Rannsakendur segjast ætla að skoða málið nánar og þá sérstaklega hvort eitthvað í vinnuumhverfi kvennanna tengist frjósemisheilbrigði þeirra.

Allmargar rannsóknir eru til um heilsufar hárgreiðslukvenna. Vitað er að þær meðhöndla efni sem geta verið þeim hættuleg á margan hátt og almennt er þekkt að starfið er erfitt, bæði líkamlega og andlega. Hárgreiðslukonur þurfa að standa mikið við vinnu sína og efnin, sem þær vinna með, berast bæði á hendur þeirra og í öndunarfæri, þær hafa samskipti við fjölda fólks og eiga þess vegna etv. fremur en ýmsir aðrir á hættu að smitast af ýmiss konar umgangspestum. Andlegt álag felst ekki hvað síst í stöðugum samskiptum við fólk sem reynt er að gera til hæfis.

Nokkrar rannsóknir hafa beinst að því að rannsaka krabbamein í þessum hópi en getgátur hafa verið uppi um að efnin sem notuð eru t.d. til hárlitunar geti valdið skaða. Nokkrar rannsóknir hafa leitt í ljós aukna tíðni ýmissa krabbameina í þessum hópi. Krabbamein í lungum, eitlum, blóðmyndandi vef, maga, ristli, brisi, brjóstum og blöðru hafa verið meðal þessara meina. Þetta kom m.a. fram í dánarmeinarannsókn meðal hárgreiðslufólks í 24 ríkjum Bandaríkjanna og blöðrukrabbamein var einnig algengara meðal hárgreiðslufólks en vænta mátti í samanburði við aðra samkvæmt rannsókn frá Vancouver í Kanada.

Önnur kanadísk rannsókn leiddi í ljós að smitsjúkdómar voru algengari dánarorsök meðal rakara og hárgreiðslufólks en annarra.

Astma og langvarandi berkjubólga var tíðari meðal hárgreiðslukvenna en annarra kvenna samkvæmt finnskri rannsókn og einkenni frá öndunarfærum voru einnig tíðari meðal norskra hárgreiðslukvenna en viðmiðunarhóps.

Erting í húð og ofnæmi fyrir efnunum sem notuð eru við hársnyrtingu er einnig þekkt meðal hárgreiðslufólks.. Ýmiss konar líkamlegt álag í starfi hárgreiðslukvenna getur leitt til álagssjúkdóma af ýmsu tagi.

Enda þótt þessi listi virðist langur er ekki með nokkru móti unnt að fullyrða að hárgreiðslufólki sé meiri hætta búin í starfi en mörgum öðrum. Rannsóknirnar sem aðgengilegar eru komast ekki allar að sömu niðurstöðu og ef efnin sem notuð eru í hárgreiðslunni eru hættuleg heilsunni er ekki enn vitað hvaða hættu þau hafa helst í för með sér.

Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin í Lyon í Frakklandi hefur reyndar gefið út rit um hárlitarefni og litarefni í snyrtivörum, en þessi efni liggja helst undir grun um að valda ófrjósemi og krabbameinum hjá hárgreiðslukonum. (Volume 57 - Occupational Exposures of Hairdressers and Barbers and Personal Use of Hair Colourants; Some Hair Dyes, Cosmetic Colourants, Industrial Dyestuffs and Aromatic Amines (1993))