Fréttir

Eftirlitsátak í byggingariðnaði

17.5.2004

17. maí ? 17. júní 2004

Vinnueftirlitið og evrópskt eftirlitsátak
Vinnueftirlitsstofnanir í Evrópusambandinu, á Íslandi og Noregi, standa fyrir átaki á byggingarvinnustöðum árin 2003 og 2004. Átakið, sem er sameiginlegt kynningar- og eftirlitsátak,  miðar m.a. að því að koma í veg fyrir fallhættu. Átakið beinist að aðilum sem koma að byggingarframkvæmdum: verkkaupum, verktökum, samræmingaraðilum, hönnuðum, byggingarfyrirtækjum og starfsmönnum.

Eftirlitsátakið beinist fyrst og fremst að öryggi og heilbrigði á byggingarsvæðum og umferðarleiðum innan þeirra. Þannig er sjónum beint að því hvort reglur, sem gilda um vinnustaðinn, séu uppfylltar, hvernig varúðarráðstafanir eru framkvæmdar og samræmingarskyldur uppfylltar.

Nýtt átaksverkefni 17. maí ? 17. júní 2004
Átakið hófst í júní 2003 og var endurtekið í september. Þann 17. maí - 17. júní 2004 mun fara fram þriðja átakið. Eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins munu þá heimsækja byggingarvinnustaði víða um land. Eins og áður er lögð áhersla á að skoða  hvernig staðið er að fallvörnum, t.d. á vinnupöllum, þökum, umhverfis göt í gólfi og alls staðar þar sem hætta er á falli. Í því sambandi er t.d. metið hvernig verktakar standa að vali, notkun og viðhaldi tækja og búnaðar.

Einnig verður sérstaklega skoðað hvernig verkkaupar og verktakar standa sig í að uppfylla kröfur sem fram koma í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum. Í því sambandi verða eftirfarandi atriði athuguð:

  • Hefur samræmingaraðili öryggis- og heilbrigðismála verið skipaður?
  • Hefur verið gerð öryggis- og heilbrigðisáætlun
  • Hefur byggingarframkvæmdin verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins?

Nokkur ný atriði sem ekki voru skoðuð í fyrri átaksverkefnum verða nú athuguð í þessu átaki og varða t.d. vinnuvélar og lyftitæki. Í því sambandi má nefna réttindi starfsmanna til að stjórna vinnuvélum og byggingarkrönum og ástand vinnuvéla og lyftitækja.