Fréttir

Eftirlit Vinnueftirlitsins með reykingabanni á veitingastöðum

8.2.2008

Dagana 1. og 2. febrúar s.l. fóru eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins í eftirlitsheimsóknir í 38 veitingahús í miðbæ Reykjavíkur. Tilefni eftirlitsheimsóknanna var að almennar grunsemdir voru um að veitingamenn mundu ekki framfylgja reykingabanni þessa helgi og að reykt væri inni á stöðunum en slíkt er með öllu óheimilt skv. 8. gr. reglugerðar nr. 326/2007 um takmarkanir á tóbaksreykingum. Af þeim 38 veitingastöðum sem skoðaðir voru var reykt á 6 stöðum. Eftirfarandi veitingastaðir voru reyklausir þegar eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins komu í eftirlitsheimsókn:

Ölstofan, Rex, Enski pubinn, Café Paris, Apótekið, Brons, Silfur, Red chili, Vínbarinn, B5, Sólon, Prikið, Kofi Tómasar frænda, Tívolí, Bar 11, Grand Rock, The Celtic Cross, Vegamót, "Sjö, níu, þrettán", Sirkus, Monte Carlo, Dillon, Kaffibarinn, Næsti bar, Domo, Strawberries, Bellys, The Dubliner, Victor, Kaffi Reykjavík, Thorvaldsen bar, Club Óðal.

Á þeim veitingastöðum þar sem reykt var gáfu eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins veitingamönnum fyrirmæli um að bæta úr ástandinu tafarlaust. Á fjórum þeirra var reykingum haldið áfram þrátt fyrir fyrirmæli Vinnueftirlitsins. Veitingamönnum umræddra staða hefur verið sent viðvörunarbréf þar sem fram kemur að ef fyrirmælum Vinnueftirlitsins verður ekki framfylgt þá munu þeir verða kærðir til lögreglu og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu send þau tilmæli að rekstrarleyfi þessara staða verði afturkölluð, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Eftirlitsátak þetta var gert í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Vinnueftirlitið mun halda eftirlitsheimsóknum sínum áfram.