Fréttir

Efnaslys

4.7.2006

Í framhaldi af alvarlegu efnaslysi sem varð í Sundlaug Eskifjarðar þriðjudaginn 27. júní s.l., þegar ediksýru var blandað saman við lítið magn af klórlausn, er rétt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Hér áður fyrr var hreinn klór eða klórgas sem er eitruð lofttegund mikið notað til sótthreinsunar, þ.á.m. í sundlaugum og fiskvinnslufyrirtækjum en einnig í öðrum tilgangi í efnaiðnaði. Í sundlaugum og fiskvinnslu var það leyst upp í vatni og notað sem klórlausn. Þá var ávallt sú hætta fyrir hendi að hreint klórgas læki út úr klórgashylkjunum eða leiðslum frá þeim enda urðu nokkur óhöpp við þessa notkun. Nú er eingöngu notuð klórlausn (algengast er 15% natríumhýpóklórítlausn) sem ekki er eitruð lofttegund heldur ætandi vökvi. Hann er síðan þynntur enn frekar út með vatni við notkun. Hætturnar við notkun á 15% klórlausn eru því svo til eingöngu bundnar við flutning og svo gagnvart starfsmönnunum sem vinna við klórkerfið. Klórgas er nú eingöngu notað undir ströngu eftirliti í efnaiðnaði.

15% klórlausn er framleidd úr klórgasi. Ef klórlausnin verður nægilega súr, t.d. ef sýru er blandað saman við hana gengur efnahvarfið að hluta til tilbaka og hin eitraða lofttegund klórgas myndast. Þetta á ekki að geta gerst ef farið er eftir settum reglum og leiðbeiningum og e.t.v. allra síst við sundlaug en eins og slysið á Eskifirði sýnir þá geta orðið mannleg mistök. Meiri hætta er á að menn blandi saman mismunandi hreinsiefnum sem ekki má blanda saman vegna sömu afleiðinga og við blöndun á klórlausn og sýru.

Á umbúðum eiga að vera varúðarmerki og hættu- og varúðarsetningar á íslensku. Við notkun á vinnustöðum eiga auk þess að fylgja með svokölluð öryggisblöð á íslensku í 16 liðum með ítarlegum upplýsingum um viðkomandi efni, hættulega eiginleika, hvernig eigi að bregðast við óhappi, hvernig eigi að slökkva eld í efninu, hvernig hlífðarbúnað eigi að nota o.s.frv. Mikilvægt er að starfsmenn kynni sér bæði upplýsingar á umbúðum og upplýsingar í öryggisblöðunum.

Víðir Kristjánsson
deildarstjóri efna og hollustuháttadeildar