Fréttir

Eflum vinnuvernd í grænu hagkerfi

27.4.2012

?Eflum vinnuvernd í grænu hagkerfi? er kjörorð Alþjóða Vinnumálastofnunarinnar á árlegum vinnuverndardegi stofnunarinnar sem er 28. apríl 2012. 
Kjörorð þessa dags fellur vel að þeirri stefnu sem Vinnueftirlitið sem stofnun vill hafa í okkar samfélagi. Vinnueftirlitið telur mikilvægt að vinnuvernd verði skilgreind inn í hugmyndafræði græns hagkerfisins. Þetta þýðir, að ekki verði rætt um vistvæna starfshætti nema þar sem fara saman fyrirmyndar umhverfis- og vinnuverndarþættir.
Þá leggur Vinnueftirlitið á það ríka áherslu að með þeim nýju starfsháttum sem kallað er eftir í grænu hagkerfi sé undirstrikað að samhliða verði vinnuvernd til fyrirmyndar. Þetta byggir ekki síst á reynslu annarra þjóða þar sem mikil krafa um s.k. græn störf eða verkefni hefur leitt til þess að vinnuvernd hefur setið á hakanum í þeim geirum. 

Til frekari glöggvunar má nefna nokkrar hættur sem tengjast grænum geirum:
a. Í metanframleiðslu og metanólverksmiðjum er m.a. eitrunarhætta og sprengihætta.
b. Sprengihætta er við framleiðslu, flutning og notkun vetnis.
c. Í lífdísilframleiðslu eru efnahættur, sprengi- og eldhættur.
d. Í íblöndunarstöðvum fyrir metanól og bensín kemur til aukin eld-, sprengi- og  eitrunarhætta.
e. Nýjar hættur vegna orkuvera t.d. vegna djúpborana.
f. Hættur vegna efna sem berast frá jarðvarmavirkjunum.
g. Endurvinnsla frá sorp- og endurvinnslustöðvum. Í framleiðslu með lífrænu niðurbroti  (metan, molta) og endurvinnslu margs konar getur skapast ný sýkingar-, eitrunar- og  önnur heilsuhætta fyrir starfsmenn.
h. Hættur vegna skordýra - og örvera í lífrænum landbúnaði.

Listi sem þessi er alls ekki tæmandi, né endurspeglar hann mat okkar á því hvað sé hættumest eða brýnast að huga að. Hann á hins vegar að vekja athygli okkar allra á því að til þess að aðgerðaráætlun um grænt hagkerfi nái markmikið sínu er nauðsynlegt að tryggja að vinnuvernd sé órjúfanlegur hluti af slíku. Það að taka fullt tillit til vinnuverndarsjónarmiða er ekki til þess að hamla framþróun á sviði græns hagkerfis heldur þvert á móti grundvallar nauðsyn til þess að markmiðum þess verði í raun og veru náð. Þ.e. vinna, vellíðan og sjálfbær þróun.

Kristinn Tómasson, dr.med
yfirlæknir Vinnueftirlitsins