Fréttir

Dómur vegna vinnuslyss þegar eftirlitsmaður klemmdist milli lyftu og þaks lyftuhúss

5.12.2004

Þann 9. nóvember s.l. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem Vinnueftirlit ríkisins og Reykjavíkurborg voru dæmd in solidum til að greiða lyftuskoðunarmanni 11.518.672 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði vegna afleiðinga slyss er hann lenti í þegar hann klemmdist milli lyftu og þaks lyftuhúss.

 

Málsatvik voru þau að þann 16.ágúst 2000 var lyftuskoðunarmaður við lyftuviðgerðir í nýbyggingu ofan á þaki lyftu sem ekki uppfyllti kröfur þágildandi 27. gr. reglugerðar nr. 203/1972 um búnað, rekstur og eftirlit með lyftum og lyftubúnaði, hvað varðar rými fyrir ofan lyftustólinn þegar hann var í efstu stöðu. Lyftan hafði verið tekin út þann 30. apríl 1994 og Vinnueftirlitið veitt heimild til þess að taka hana í notkun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um öryggisbúnað. Af óþekktum ástæðum fór lyftan af stað og upp á efstu hæð. Með því að öryggisbil sem átti að vera efst í lyftuganginum var allt of lítið klemmdist lyftuskoðunarmaðurinn á milli lyftunnar og þaks lyftuganganna. 

Byggt er á því að orsakir slyssins sé alfarið að rekja til hættulegra aðstæðna á vinnustað, ófullnægjandi öryggisbúnaðar, sem stefndi hafi hvorki vitað af eða getað vitað um að vantaði. Um hættulegan vinnustað sé að ræða og af þeim sökum verði að gera strangar kröfur um öryggi og fullnægjandi verklag. 

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að lyftan uppfyllti ekki kröfur þágildandi 27. gr. reglugerðar nr. 203/1972 um búnað, rekstur og eftirlit með lyftum og lyftubúnaði, hvað varðar rými fyrir ofan lyftustólinn þegar hann var í efstu stöðu. Vinnueftirlitið beri því sök á slysinu með því að hafa veitt ólögmæta undanþágu frá fortakslausu ákvæði reglugerðarinnar. Þá ber Reykjavíkurborg sök á slysinu með því að ákvæði reglugerðar nr. 203/1972 voru ekki virt og öryggisbúnaði að öðru leyti áfátt og aðstæður stórhættulegar hverjum þeim sem á lyftuþakinu var. 

Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir

lögfræðingur Vinnueftirlitsins