Fréttir

Dómur vegna brota á reglum um vinnuvélaréttindi og notkun tækja

19.4.2004

Þann 7. apríl s.l. féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem verkstjóri fyrirtækis var dæmdur til að greiða kr. 50.000 í sekt í ríkissjóð fyrir brot á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglum nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum og reglugerð nr. 431/1997 um notkun tækja. 

 

Málsatvik voru þau að slys varð er vinnuvél, er starfsmaður ákærða var við vinnu á, valt með þeim afleiðingum að hann varð undir vélinni. Við það fékk starfsmaðurinn þungt högg á kvið og læri. Í dóminum er verkstjórinn sakaður um að hafa látið viðgangast að starfsmaður stjórnaði vinnuvél án þess að hafa til þess tilskilin réttindi og að hafa eigi séð um að vinnuvél væri búin öryggisbelti og veltigrind eða grind sem skapar nægilegt rými umhvefis ökumann.

 

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að skv. 21. gr. laga nr. 46/1980 er verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og skal hann sjá um að allur aðbúnaður á vinnustað sé góður og öruggt skipulag ríkjandi. Einnig skal hann skv. 23. gr. beita sér fyrir að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórnar sé fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Þá skal hann sjá um að þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til þess að auka og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Ákærði bar því að sjá til þess að þeir einir stjórnuðu vinnuvélum í hans umsjá sem hefðu tilskilin réttindi til þess, sbr. 2. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum og að tækin sem starfsmönnum voru látin í té hentuðu til þeirra verka sem vinna átti, eða væru hæfilega löguð að þeim, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 431/1997 um notkun tækja.

 

Áslaug Einarsdóttir,

lögræðingur Vinnueftirlitsins