Fréttir

Dómur vegna brota á reglum um vinnuvélaréttindi og notkun tækja

5.12.2004

Þann 18. nóvember s.l. féll dómur í Hæstarétti Íslands þar sem X var sýknaður af kröfu ákæruvaldsins. X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. tölulið A-liðar 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglna nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum, sbr. 1. gr. reglna nr. 24/1999 og 1. gr. reglna nr. 816/2000, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með því að hafa stjórnað lyftara án tilskilinna réttinda.

Í 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 198/1983, eins og þeim var breytt með 1. gr. reglna nr. 816/2000, var kveðið á um að þeir einir mættu stjórna vinnuvélum sem til þess hefðu réttindi. Voru reglurnar settar af stjórn Vinnueftirlits ríkisins og staðfestar af félagsmálaráðherra. Brot gegn 1. mgr. 2. gr. reglnanna gat þá orðið refsivert samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þeirra. Voru reglurnar settar með heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980, þar sem upphaflega var kveðið á um að stjórn Vinnueftirlits ríkisins skyldi setja reglur um kennslu, þjálfun og próf er gæfu til kynna næga þekkingu þeirra, sem óskuðu eftir leyfi til að mega stjórna eða fara með tilteknar vélar.

Með 15. gr. laga nr. 68/2003, sem tóku gildi áður en meint brot X átti sér stað, var ákvæðinu breytt þannig að félagsmálaráðherra skyldi að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja umræddar reglur. Talið var að löggjafanum hafi ekki verið heimilt að framselja Vinnueftirliti ríkisins vald til að ákveða hvaða háttsemi skyldi varða refsingu samkvæmt lögum nr. 46/1980. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.


Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir
lögfræðingur Vinnueftirlitsins