Fréttir

Dómur vegna banaslyss við breikkun Krossnesbrautar

20.12.2005Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt verkstjóra til greiðslu 50.000 króna í sekt fyrir brot gegn ákvæðum 23. gr. og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980 og að hafa ekki gætt nægilegs öryggis við breikkun Krossnesbrautar sem hafði þær afleiðingar að starfsmaður lést.

Slysið varð með þeim hætti að ökumaður stórrar vörubifreiðar sturtaði, þvert af veginum, jarðvegi af palli bifreiðarinnar til uppfyllingar undir breikkun brautarinnar. Aðstæður við að sturta hlassinu af pallinum voru mjög aðþrengdar og ekki taldar nægilega öruggar.

Í dómsniðurstöðu er m.a. byggt á umsögn Vinnueftirlits ríkisins en í henni kemur fram að sú aðferð, sem notuð var við verkið, hafi verið ein af orsökum slyssins. Með vísan í þessa umsögn, önnur gögn málsins og framburð vitna, taldi dómurinn að verkstjórinn hefði ekki gætt nægjanlega að öryggi ökumanns bifreiðarinnar með því að láta hann losa farminn með þeim hætti sem gert var. Með háttsemi sinni braut verkstjórinn því gegn ákvæðum 23. gr. og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980.

Áslaug Einarsdóttir, lögfræðingur Vinnueftirlitsins