Fréttir

Dómur vegna banaslyss í byggingarvinnu

8.3.2004

Þann 24. febrúar sl. féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem verktaki, verkstjóri verktaka og undirverktaki voru allir dæmdir til greiðslu sekta vegna brota á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti, reglum nr. 331/1989 um röravinnupalla og á reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðrar tímabundnar mannvirkjagerð. 

 

Málsatvik voru þau að slys varð á byggingarvinnustað er verið var að klæða hús að utan með bárujárni með þeim afleiðingum að starfsmaður undirverktaka féll af vinnupalli og beið bana.  Í málinu lágu fyrir þrjár úttektir frá Vinnueftirlitinu sem gerðar voru áður en slys varð.  Í þeim kemur fram að fallvörnum hafi verið verulega ábótavant á vinnupöllum sem notaðar voru við framkvæmdirnar. 

  

Ábyrgð ákærðu í málinu var talin misrík.  Í dómnum kemur fram að verktaki beri sem atvinnurekandi ábyrgð á öryggi starfsmanna á vinnustað.  Talið var sannað að hann hafi ekki farið að ítrekuðum fyrirmælum Vinnueftirlitsins um úrbætur á fallvörnum vinnupallanna.  Þótti refsing verktaka því hæfilega ákveðin sektargreiðsla að upphæð kr. 500.000.  Refsiábyrgð verkstjórans var hins vegar ekki talin eins rík og ábyrgð atvinnurekandans sjálfs og þótti refsing því hæfilega ákveðin sektargreiðsla að upphæð kr. 100.000. 

 

Í dómnum segir að verkstjórinn, sem var starfsmaður verktaka, bar að sjá til þess að starfsskilyrði væru fullnægjandi og að þeim ráðstöfunum sem gerðar væru til þess að auka öryggi yrði framfylgt.  Jafnframt kom fram í dómnum að honum var kunnugt um að Vinnueftirlitið hafði gert athugasemdir við fallvarnir á byggingarstaðnum og hann hafi fengið kvartanir frá starfsmönnum vegna aðbúnaðar vinnupallanna. 

 

Undirverktakinn, sem sá um klæðningu hússins og var verkstjóri starfsmannsins sem varð fyrir slysinu, var dæmdur til 150.000 kr. sektar.  Í dómnum kemur fram að hann var sem atvinnurekandi og verkstjóri ábyrgð á öryggi starfsmanna á vinnustaðnum.  Þrátt fyrir að hafa kvartað undan frágangi og ástandi vinnupallanna við verktaka firrti það hann ekki ábyrgð þar sem vinnu var haldið áfram með fyrrgreindum afleiðingum.

 

Áslaug Einarsdóttir  lögfræðingur Vinnueftirlitsins er höfundur þessarar samantektar