Fréttir

CE merking véla - hvað á að gera og hvernig?

10.2.2010

Námskeið fyrir hönnuði, framleiðendur og innflytjendur véla og tæknibúnaðar vegna nýrrar reglugerðar um vélar og tæknilegan búnað.

Námskeið varðandi samræmismat, CE-merkingar og áhættumat véla og tæknilegs búnaðar verður haldið af Vinnueftirlitinu og Staðlaráði dagana 14. og 15. apríl nk. Markmiðið er að þátttakendur verði færir um að greina hvort búnaðurinn falli undir vélatilskipun ESB, og þar með undir reglugerð um vélar og tæknilegan búnað nr. 1005/2009, og læri hvernig á að CE-merkja slíkar vörur. Jafnframt verður fjallað um áhættumat sem nú er krafist sbr. ákvæði tilskipunarinnar og reglugerðarinnar.

Óheimilt er að markaðssetja vörur án CE-merkis á Evrópska efnahagssvæðinu, heyri þær undir svokallaðar nýaðferðartilskipanir Evrópusambandsins. Því er brýnt fyrir framleiðendur og innflytjendur véla að gæta að því hvort vörur þeirra heyri undir tilskipanirnar og uppfylli kröfur þeirra. Framleiðendur og innflytjendur bera sjálfir ábyrgð á að vörur þeirra séu CE-merktar, ef við á. Eftir að varan hefur verið CE-merkt, að undangengnu samræmis- og áhættumati,  má markaðssetja hana án hindrana í öllum löndum EFTA og ESB.