Fréttir

Búnaður á sláttuorf innkallaður í framhaldi af banaslysi

24.9.2010

FRÉTTATILKYNNING
 
Búnaður á sláttuorf innkallaður í framhaldi af banaslysi
 
Framleiðandi búnaðar á garðsláttuorf hefur innkallað búnað á sláttuorf í framhaldi af dauðaslysi sem varð í tengslum við notkun hans. Búnaðurinn er af gerðinni Attila ATHU001 ?Hulk Professional Forestry Blade?, framleiddur á Ítalíu.
Búnaðurinn samanstendur af snúningshaus með stálblöðum sem festur er á garðsláttuorf í stað hefðbundins snúningshauss með vírkeflum. Er þetta gert til að breyta notkun garðsláttuorfa frá því að slá gras og yfir í að klippa runna, lúpínu og annan stærri gróður. Hættan samfara notkun búnaðarins felst í að stálblöðin, sem snúast mjög hratt við notkun, hafa losnað eða brotnað og þeyst í burtu en við það hefur skapast hætta á alvarlegum slysum. Er þetta rakið til slits á festingum blaðanna, yfirálags á þau, öldrunar eða annars. Ekki er til staðar nægilega öflugur hlífarbúnaður á venjulegum sláttuorfum til að koma í veg fyrir þessa hættu.
Búnaðurinn er því ekki talinn uppfylla ákvæði vélatilskipunar og reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað. Er því sala og notkun hans á sláttuorf bönnuð skv. 48. gr. a. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Auk þess hefur búnaðurinn verið innkallaður af framleiðanda.
Eina undantekningin frá framangreindu banni er að heimilt er að selja og nota þennan búnað með sláttuorfi af gerðinni GLS 26 ECO.
 
 
Myndir af búnaðinum:
 
1369-10-mahkopf_hulk_01-1       1369-10-mahkopf_hulk_02