Fréttir

Brjóstakrabbamein viðurkennt sem atvinnusjúkdómur

2.3.2009

Það eru ekki aðeins hjúkrunarfræðingar sem fá atvinnusjúkdómabætur vegna brjóstakrabbameins sem talið er tengjast næturvinnu þeirra. Nýlega fékk fyrsta flugfreyjan slíkar bætur að því er fram kemur í grein í blaðinu Arbejdsmiljø sem gefið er út á vegum Rannsóknastofnunarinnar í vinnuvernd í Danmörku (Det Nationale Forskningscenter for Arbejdsmiljø.
 Stöðugt fjölgar þeim konum sem fá bætur vegna brjóstakrabbameins sem rakið er til næturvinnu, segir í frétt blaðsins. Fram til þessa hafa það einkum verið hjúkrunarfræðingar, sem hafa fengið slíkar bætur, en þetta er fyrsta flugfreyjan. Konurnar sem hafa fengið slíkar bætur hafa unnið vaktavinnu í a.m.k. 20-30 ár og tekið næturvaktir a. m. k. einu sinni í viku.
 Alþjóðlega krabbameinsstofnunin telur vaktavinnu, sem truflar dægursveifluna, mögulega krabbameinsvaldandi (flokkur 2A).