Fréttir

Breytingar á vinnuverndarlögunum

25.3.2003

Á síðasta degi þingsins voru samþykktar nokkuð viðamiklar breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (lög nr. 46/1980) sem venjulega ganga undir nafninu vinnuverndarlögin. Breytingarnar snerta mörg atriði í vinnuverndarlögunum, t.d. áhættumat, heilsuvernd starfsmanna, vinnutíma, rannsóknir, markaðseftirlit með vélum og öðrum búnaði, skráningu atvinnurekenda á óhöppum sem gætu valdið slysum, setningu reglna um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum og andlega eða líkamlega einhæf störf og samsetningu og hlutverk stjórnar Vinnueftirlitsins. Í lögunum er nú tekið skýrt fram að Vinnueftirlitinu beri að stunda rannsóknir á vinnuverndarsviði en áður var ætlast til að það ætti frumkvæði að því að rannsóknir af þessu tagi væru framkvæmdar af ?viðeigandi stofnunum á hinum ýmsu tegundum atvinnusjúkdóma".

Það sem ef til vill hefur mesta breytingu í för með sér fyrir starfsmenn og stjórnendur eru ákvæðin um áhættumat á vinnustöðum og heilsuvernd starfsmanna. Með þessum lagabreytingum er að öllum líkindum stigið stórt skref á Íslandi í þágu vinnuverndar. Tekið skal fram að lagabreytingarnar öðlast þegar gildi.