Fréttir

Birtingarmyndir vanlíðanar hjá konum í hópi grunnskólakennara

23.4.2007

Nýlega birtist í Netlu - Veftímariti um uppeldi og menntun hjá Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, niðurstöður rannsóknar á birtingarmyndum vanlíðanar hjá konum í hópi grunnskólakennara. Þær, sem mátu heilsu sína, líkamlega líðan eða andlega líðan sæmilega eða slæma voru bornar saman við hóp þeirra sem mat heilsu sína og líðan góða eða mjög góða. Spurningalisti með tvíkosta spurningum og einföldum fjölvalsspurningum var sendur til 600 kvenna úrtaks kennara úr félagaskrá Félags grunnskólakennara. Svörun var 69%. Reiknuð voru líkindahlutföll með 95% vikmörkum. Niðurstöðurnar sýndu að vanlíðan hjá kennurum kom fram bæði í andlegum og líkamlegum einkennum. Líkindahlutfallið var hátt í mörgum tilfellum. Þær sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan sæmilega eða slæma töldu sig óvirkari en aðrar konur á sama aldri, leituðu oftar læknis, áttu erfiðara með svefn, stunduðu síður líkamsrækt og voru líklegri til að nota lyf af ýmsu tagi en þær sem létu betur af heilsu sinni og líðan. Vanlíðanin birtist einnig í þreytu, vöðvabólgu, höfuðverk, bakverkjum, skapsveiflum og kvíða svo nokkuð sé nefnt.
     Birtingarmyndir vanlíðanar kvenna í hópi grunnskólakennara eru samkvæmt þessu margar og mismunandi og því full ástæða til að huga að fleiri þáttum en þeim, sem flestar rannsóknir á heilsu kennara hafa hingað til beinst að, þ.e. streitu, kulnun og raddheilsu.
     Höfundar greinarinnar eru: Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins, Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, dósent við Háskóla Íslands. Allir höfundarnir tengjast jafnframt Rannsóknastofu í vinnuvernd.