Fréttir

Banaslys á Norðurlöndum við vinnu frá 2003 til 2008

4.3.2011

Umfang vinnuslysa er mikilvægur mælikvarði á stöðu vinnuverndar. Norrænar þjóðir hafa lengi þótt standa framarlega hvað varðar vinnuvernd og aðra almenna velverðarþjónustu. Norræna vinnuverndarnefndin gekkst fyrir rannsókn á umfangi banaslysa við vinnu á árunum 2003 til 2008.  Horft var til umfangs slysanna og einnig þeirra kerfa sem notuð eru til að tilkynna þau, rannsaka og skrá. Slys á sjó og í lofti sem og umferðarslys á þjóðvegum voru ekki tekin með í þessari athugun.
Heildarfjöldi tilkynntra banaslysa við vinnu var á tiltekna tímabilinu 1243. Þetta svarar til 1,51 til 2,49 banaslysa á hverja 100.000 starfandi á ári hverju, mismunandi milli landa, en hæst á Íslandi. Meira en 93% þessara slysa voru á karlmönnum. Þetta endurspeglar án efa hlutfall karlmanna í hættulegustu starfsgreinunum, s.s. landbúnaði , mannvirkjagerð og samgöngum og flutningum. Algengast var að þessi slys tengdust notkun vinnuvéla og orsök slysanna tengdust því að missa stjórn á búnaði, hruni á efni eða vöru, eða því að hinn látni hafði fallið. 
Þrátt fyrir að skráning sé góð á Norðurlöndum þarf að samræma hana betur milli landanna til þess að hægt sé að bera saman upplýsingar úr slysaskrám án mikillar fyrirhafnar. Slík vinna mundi bæta slysarannsóknir verulega og niðurstöður þeirra mætti nýta til frekari forvarna.