Fréttir

Bakverkir og einstaklingsbundin lyftitækni í umönnun

27.3.2004

Nýleg rannsókn frá sænsku rannsóknastofnuninni í vinnuvernd (Arbetslivsinstitutet) leiddi í ljós að það er afar mismunandi hvaða hreyfingamynstur fólki er eiginlegt við umönnun sjúklinga. Leiðbeiningar um lyftitækni ættu því að taka meira mið af einstaklingnum en áður hefur tíðkast ef koma á í veg fyrir bakveiki.

Eldri starfsmenn, þeir bakveiku og karlmenn í umönnun beittu varhugaverðari aðferðum við að lyfta sjúklingum og færa þá úr stað en yngra hjúkrunarfólk, konur í umönnun og þeir/þær sem voru ekki slæm í baki. Þetta kom fram í rannsókn Katarina Kjellberg sem skrifaði doktorsritið "Work technique in lifting and patient transfer tasks", sem fjallar um þetta efni. Katarina kom auga á það að þegar fólk lyfti kassa var aðferðin og hreyfingarnar afar misjafnar þótt fólk hefði fengið sömu tilsögnina og leiðbeiningarnar. Konur og karlar lyftu líka ólíkt.

Rannsóknir Katarina leiddu einnig í ljós að þeir sem beittu réttri tækni fengu hærri einkunn hjá sjúklingunum sem þjónustunnar nutu. Sjúklingarnir fundu til meira öryggis og þæginda í höndum þeirra, sem kunnu vel til verka, en annarra.

Þessar fréttir voru í nýlegu fréttabréfi sænsku rannsóknarstofnunarinnar í vinnuvernd, Working Life. Þeir sem vilja frekari upplýsingar um rannsóknina geta leitað til Katarina Kjellberg í síma: +46 8 619 67 15 eða spurst fyrir á netfanginu: katarina.kjellberg@arbetslivsinstitutet.se.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins.